Óheillaspor að selja mjólk á „dollar“
23.05.2014
Í Ástralíu hafa matvöruverslanir selt mjókurlíterinn á 1 ástralskan dollara undanfarið eða í kringum 105 íslenskar krónur og hafa verslanirnar gert langtímasamninga við afurðastöðvarnar svo unnt sé að bjóða upp á „Dollaramjólk“. Kúabændur landsins hafa hins vegar áhyggjur af markaðssetningu á „Dollaramjólk“ þar sem líkurnar á að ná nauðsynlegum verðhækkunum út í samfélagið eru hverfandi þegar mjólkin er alltaf seld á föstu verði.
Innkaupastjórar stórra verslunarkeðja eins og Woolworths og Coles höfðu reyndar séð fyrir þessar áhyggjur bændanna og gerðu því langtímasamninga við afurðastöðvarnar og eru þeir lengstu til allt að sjö ára! Fyrir vikið eru afurðastöðvarnar og þar með kúabændurnir læstir og munu ekki geta fengið hærra verð fyrir mjólk sína á næstunni svo heitið geti. Á hinn bóginn eru bændurnir nokkuð tryggir með sölu mjólkur á næstunni, sem vissulega er ákveðinn kostur einnig. Heilt yfir telja þó flestir að það sé óheillaspor að festa verð á mjólk með þessum hætti og að slíkt dragi einnig úr möguleikum á því að hækka verð á öðrum en þó óskyldum mjólkurvörum/SS.