Offramleiðsla mjólkur á heimsvísu
18.07.2012
Eins og við greindum frá í gær voru bændur í Stóra-Bretlandi að mótmæla í síðustu viku lækkuðu afurðastöðvaverði. En það eru ekki bara afurðastöðvar í Stóra-Bretlandi sem hafa boðað verðlækkun á mjólk til bænda, flestar afurðastöðvar í heiminum eru nú að skoða stöðu sína eftir að veruleg framleiðsluaukning hefur orðið á mjólk síðustu vikurnar.
Framboðið á mjólk inn á heimsmarkaðinn er núna langt umfram eftirspurnina og skýrist þetta mikla magn m.a. af 15% aukinni framleiðslu í Nýja-Sjálandi fyrsta ársfjórðung ársins, sem og verulegri aukningu í bæði Bandaríkjunum og innan landa Evrópusambandsins. Þetta hefur leitt til verðlækkunar á ostum, smjöri og mjólkurdufti og spá fræðingar innan mjólkuriðnaðarins nú að ekki sé útlit fyrir verðhækkanir á ný fyrr en mögulega í október nk./SS.