Beint í efni

Of mikil beit í Nýja-Sjálandi

06.09.2013

Þau eru ólík vandamálin á milli landa. Nú berast fregnir af því að óvenju mikil spretta í Nýja-Sjálandi er farin að valda vandamálum þegar kúnum er beitt. Afar góð spretta hefur verið í landinu og hafa kýrnar ekki haft undan grasvextinum. Þetta hefur eðlilega þýtt það að grasið hefur sprottið úr sér, sem er venjulega ekki mikið vandamál í Nýja-Sjálandi.

 

Þessi staða kallar á afar góða og vandaða búskaparhætti enda þarf að slá niður hluta af beitinni svo kýrnar einbeiti sér að því að bíta niður viðkomandi beitarsvæði áður en þær eru færðar á næsta stykki. Hve mikið á að slá og hve ört er hinsvegar vandasamt verk eins enda sér þess strax mun á nytinni sé slegið of mikið, en einnig ef slegið er of lítið enda ná kýrnar þá ekki að nýta beitarstykkið sem skildi.

 

Bændur hafa nú verið hvattir til þess að draga úr köfnunarefnisgjöf og stæðuverka hey til þess að ná tökum á stöðunni. Algengt viðmið í Nýja-Sjálandi er að aðgengileg beit nemi 3.200 kg af þurrefni af hverjum hektara en reynslan sýnir að sé meira magn aðgengilegt þá ná kýrnar ekki að bíta stykkið niður.

 

Þeir bændur sem ekki hafa tök á því að slá niður stykki hafa verið hvattir til þess að taka hluta af landinu úr notkun frekar en að missa tökin á beitinni eða eins og segir í tilkynningu þarlendrar ráðgjafamiðstöðvar í lauslegri snörun: „Það er betra að hafa 90% af aðgengilegri beit í góðu lagi en alla beit ómögulega“. Hægt er að lesa sér til um góð beitarstjórnunarráð á heimasíðu DairyNZ hér: www.dairynz.co.nz/surplus/SS.