Beint í efni

OECD/FAO: horfur í landbúnaði til 2016

25.07.2007

Þann 20. júlí sl. kom út skýrsla á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD og Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu Þjóðanna, FAO, um stöðu og horfur í landbúnaði í heiminum fram til ársins 2016. Skýrsluna í heild má nálgast hér. Í inngangi er efni hennar dregið saman í 10 megin atriði sem sjá má hér að neðan.

Þegar skoðuð er þróun í framleiðslu og eftirspurn á helstu vöruflokkum (s. 22), kemur í ljós að neysla á flestum mjólkurvörum eykst hraðar en framleiðslan og að aukning í neyslu er mest í ríkjum utan OECD, enda er fólksfjölgunin langmest þar. Framleiðsla og neysla á nautakjöti helst í hendur. Verð á þessum vörum er talið verða 20-30% hærra en það var að jafnaði árið 1996. Ekki er gert ráð fyrir nýjum samningum á vegum Alþjóða Viðskiptastofnunarinnar (WTO) á tímabilinu sem hér um ræðir.

1. Hátt heimsmarkaðsverð á búvörum um þessar mundir stjórnast að stórum hluta vegna tímabundinna þátta, veðurfari (þurrkum) og lítilla birgða. Þó er bent á að aukin eftirspurn eftir korni til framleiðslu á lífeldsneyti, og minnkun offramleiðslu vegna breytinga í landbúnaðarstefnu (t.d. afnám útflutningsbóta hjá ESB), geti leitt til þess að verð á haldist talsvert yfir meðalverði síðustu ára, næstu 10 árin.

2. Hátt verð á landbúnaðarvörum er áhyggjuefni fyrir þann hluta þróunarlandanna sem eru nettó innflytjendur matvæla, sem og fátækari íbúa í borgum, og mun herða á umræðum um „mat vs. eldsneyti“. Einnig mun hátt verð á kornvörum sem notaðar eru til lífeldsneytisframleiðslu bæta hag framleiðenda, en skaða hag þeirra bænda sem nota þessar sömu kornvörur sem skepnufóður.

3. Væntingar um að hærra verð á landbúnaðarafurðum haldist til langframa, mun ýta undir frekar stefnubreytingar í landbúnaði í átt frá opinberum stuðningi. Þetta minnkar þörf fyrir innflutingsvernd og mun gefa möguleika á tollalækkunum.

4. Stöðug aukning í eftirspurn eftir kornvörum, sykri, olíufræi og matarolíum til lífeldsneytisframleiðslu, er einn af megin áhrifavöldunum í í spánni. Á því tímabili sem spáin nær yfir, verður gífurlegt magn af maís í Bandaríkjunum, hveiti og rapsi í Evrópu og sykri í Brasilíu notaður til framleiðslu á etanóli og líf-diesel. Þetta hefur mikil áhrif til hækkunar á kornverði og þ.a.l. einnig til hækkunar á verði búfjárafurða, kjöts og mjólkur, í egnum hærra fóðurverð. Sem dæmi má nefna að áætlað er að notkun á maís í Bandaríkjunum í þessu efni fari úr 55 milljónum tonna (20% af uppskerunni 2007) í 110 milljónir tonna (32% af ársuppskerunni árið 2016)

5. Að því gefnu að framleiðsla á lífeldsneyti í tempraða beltinu, geti ekki staðið á eigin fótum efnahagslega, munu straumar og stefnur í þessum geira, tækniþróun og verð á hráolíu (spá gerir ráð fyrir 55-60 USD/tunnu) hafa mikil áhrif á horfur í landbúnaði og leitt til lægra verðs en gert er ráð fyrir í spánni.

6. Gert er ráð fyrir ört vaxandi eftirspurn eftir landbúnaðarvörum í þróunarlöndunum og ört vaxandi hagkerfum, eins og t.d. Kína. Sú eftirspurn ýtir undir innflutning til þessara landa, sem og vöxt innlendrar framleiðslu þar. Af því leiðir að hlutur OECD ríkjanna í framleiðslu og útflutningi mun minnka og hlutur ríkja utan bandalagsins mun aukast að sama skapi.

7. Hlutur heimsverslunar með landbúnaðarafurðir mun aukast í öllum vöruflokkum, en mismikið þó. Aukningin árið 2016, samanborið við meðaltal áranna 2001-5, verður minnst í undanrennudufti, 7%, 13-17% í kornvörum (bygg, hveiti o.þ.h.), yfir 50% í nautakjöti, svínakjöti og mjólkurdufti og allt að 70% í jurtaolíum.

8. Gert er ráð fyrir því að innflutningur aukist hraðar í þróunarlöndum en OECD löndum í öllum vöruflokkum, að jurtaolíum undanskildum. Aukningu í eftirspurn á mörkuðum í þróunarlöndunum mun í öllum flokkum, að korninu undanskildu, verða mætt með innflutningi frá öðrum þróunarlöndum. Heimsmarkaður með búvörur mun því í ríkari mæli einkennast af auknum viðskiptum milli landanna á suðurhveli, sem leiðir af sér aukna samkeppni við útflutningslönd innan OECD.

9. Aukning á útflutningi búvara frá Argentínu og Brasilíu er gríðarleg. Vöxturinn í Brasilíu er mestur í framleiðslu á sykri, jurtaolíu og kjöti (innflutningur á kjöti til Rússlands er t.d. nær allur þaðan). Útflutningur Argentínumanna er fjölbreyttari, nær að auki yfir korn- og mjólkurvörur. Önnur vaxandi útflutningslönd í hópi þróunarlanda eru Rússland og Úkraína, þar sem er mikill vöxtur í kornræktinni, Víetnam og Thailand í hrísgrjónum, og Thailand, Malasía, Indland og Kína á sviði alifuglaræktar.

10. Vöxtur í innflutningi dreifist á mun fleiri lönd en útflutningurinn. Þar eru þó yfirburðir Kínverja í jurtaolíum og olíufræi með ólíkindum. Árið 2016 er gert ráð fyrir að landið verði orðinn langstærsti innflytjandi á þessum varningi í heiminum, þar af verði hlutdeild þeirra í innflutingi á olíufræi orðinn tæp 50% af heimsverslun með þá vöru.