Beint í efni

Ódýrari innflutningur skilar sér ekki í lægra verði til neytenda

17.12.2020

Innflutningsverð nautakjöts hefur lækkað um 21,3%

Meðalkostnaður innflutningsaðila fyrir innflutt kíló af nautakjöti frá Evrópu hefur lækkað um 21,3% síðastliðna 12 mánuði (nóv. 2019 – okt. 2020), úr 2.332 kr/kg í 1.834 kr/kg. Munar mestu um að hakk og hakkefni hafa lækkað um rúmlega 40% á þessu tímabili en vöðvar og hryggir lækkuðu um 6%. Bæði hefur meðalverð á innfluttu nautakjöti (CIF) lækkað um 7,3% og verð á tollkvótum fyrir nautakjöt lækkað um 65%, úr 570 kr/kg seinnihluta árs 2019 í 200 kr/kg seinnihluta þessa árs.  Þrátt fyrir það hefur verð á innfluttu nautakjöti hækkað til neytenda á tímabilinu samkvæmt nýlegri skýrslu ASÍ.

„Í umræðum um hækkandi matvælaverð hafa innflutningsaðilar borið fyrir sig veikingu íslensku krónunnar gagnvart evru en ljóst er á gögnum Hagstofu Íslands að sú gengislækkun hefur ekki haft hækkandi áhrif á kaupverð nautakjöts erlendis frá. Þvert á móti hefur það lækkað. Þrátt fyrir það og lækkun á verði tollkvóta hefur verð til neytenda hækkað.“ segir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.

Meðfylgjandi mynd sýnir þróunina á innkaupsverði innflutningsaðila á nautakjöti frá EVRÓPU samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands (CIFverð) og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins (verð á tollkvóta).

Lækkun á verði tollkvóta skilaði sér ekki í lægra verði til neytenda

Um síðastliðin áramót var tekið upp nýtt fyrirkomulag um útboð tollkvóta, svokölluð hollensk leið. Með hollensku leiðinni stýrir lægsta boð verði á tollkvóta og var stuðst við það fyrirkomulag í fyrsta sinn við úthlutun tollkvóta fyrir seinni helming þessa árs. Með nýrri aðferð lækkaði verð á tollkvótum fyrir nautgripakjöt um 40% frá fyrra útboði, úr 331 krónu í 200 krónur á kílóið. Landbúnaðarráðherra hefur nú lagt fram frumvarp um að tímabundið verði tekið upp fyrra fyrirkomulag útboðs á tollkvóta og verður tollkvóta því fyrst úthlutað til hæstbjóðanda, svo til þess er næsthæst bauð og þannig koll af kolli uns tiltækum kvóta hefur verið úthlutað að fullu og greiða bjóðendur tilboðsfjárhæðina að fullu. Er meginmarkmið frumvarpsins að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins á innlenda framleiðslu landbúnaðarafurða.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var fullyrt að verði tekið upp fyrra fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta um komandi áramót muni verð á innfluttum landbúnaðarvörum hækka. Þá var sérstaklega tekið fram að kílóverð á nautakjöti myndi hækka „um mörg hundruð krónur hvert kíló“ ef breytt yrði aftur til fyrra fyrirkomulags og mátti skilja sem svo að verð á nautakjöti til neytenda hefði lækkað við upptöku nýrrar útboðsleiðar um síðustu áramót. Það er ekki rétt. Þvert á móti hefur verð á innfluttu nautakjöti hækkað til neytenda samkvæmt skýrslu ASÍ og innflutt nautakjöt hækkað meira í verði en innlent, þrátt fyrir lægri kostnað innflutningsaðila.

Innflutningur á yfirfullan markað

Um komandi áramót mun tollkvóti frá ESB fyrir nautakjöt aukast um rúm 27%, úr 547 í 696 tonn á ársgrundvelli. Með þeirri breytingu hefur tollkvóti fyrir nautakjöt frá ESB til Íslands tæplega sjöfaldast frá ársbyrjun 2018. Með fækkun ferðamanna vegna Covid-19 og takmörkunum á starfsemi veitingahúsa hefur sala á nautakjöti dregist mjög saman, bæði á innlendum og innfluttum afurðum. Í umsögn Félags atvinnurekenda um frumvarp um breytingu á úthlutun tollkvóta kemur fram að innflutningsaðilar hafi leitast eftir að dreifa keyptum tollkvóta á lengri tímabil eða skila honum og fá endurgreiðslu. Það gefur skýrt til kynna að of mikið magn er nú þegar í umferð miðað við markaðsaðstæður. Þá eru langir biðlistar í slátrun hérlendis.

Sé stærstur hluti tollkvóta nýttur í næsta útboði er ljóst að verið er að flytja inn á yfirfullan markað og slíkt leiðir iðulega til verðlækkunar frekar en verðhækkunar líkt og talsmenn innflutningsaðila og verslunar boða nú. Á opinberum gögnum er ljóst að verið er að flytja inn vörur á lægra verði en áður en selja til neytenda á hærra verði.

„Það hlýtur að vera baráttumál neytenda að lægra innkaupsverð skili sér í verði til neytenda. Án þess er eina afleiðingin af auknum tollkvótum og lækkun á verði þeirra aukinn þrýstingur frá milliliðum á lækkun afurðaverðs til íslenskra bænda, sem nú þegar er óviðunandi.“ segir Margrét.