Beint í efni

Óbreytt röð 10 stærstu mjólkurframleiðslulanda heims

09.08.2010

FAO (Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna) heldur utan um ýmiskonar áhugaverða tölfræði um landbúnað, m.a. mjólkurframleiðslu. Nýjustu aðgengilegu upplýsingarnar um framleiðslu kúamjólkur er fyrir árið 2008 en tölur fyrir árið 2009 eru væntanlegar í desember. Í yfirliti FAO kemur fram að 10 mestu mjólkurframleiðslulöndin framleiða alls um 330 milljarða lítra mjólkur.

 

Mjólkurframleiðslan í Bandaríkjunum er lang mest eða 88,7 milljarðar lítra en

þar á eftir kemur Indland með nærri helming þess magns eða 45,4 milljarða lítra.

 

Engar breytingar urðu á röð 10 framleiðsluhæstu landanna frá árinu 2007 en þó urðu nokkrar breytingar á framleiðslumagninu á milli landanna eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Nokkra athygli vekur að þróunarlöndin virðast ekki vera að auka framleiðslu sína jafn mikið og áður var ætlað. Þá er jafnframt útlit fyrir að aukning þessara landa komi fyrst og fremst til vegna aukinnar eftirspurnar á heimamörkuðum.

 

Magn í milljörðum lítra 2007 2008 Breytingar
1 Bandaríkin

86,7

88,7 +2%
2 Indland 44,8 45,4 +1%
3 Kína 36,6 36,9 +1%
4 Rússland 32,9 33,1 +1%
5 Þýskaland 29,2 29,5 +1%
6 Brasilía 27,7 28,6 +3%
7 Frakkland 25,1 25,2 +1%
8 Nýja-Sjáland 16,1 15,7 -3%
9 Stóra-Bretland 14,4 14,1 -2%
10 Pólland 12,5 12,8 +3%

 

Fram kemur í greiningu DairyCo Datum á þessum upplýsingum að af þeim löndum sem eru á topp-10 listanum, þá er líklegast að mjólkurframleiðslan í Brasilíu eigi eftir að aukast töluvert frá því sem nú er og er því spáð að brasilískir kúabændur eigi eftir að gera sig mjög gildandi á heimsmarkaði með mjólkurafurðir á komandi árum. Það kemur væntanlega ekki íslensku kúabændunum, sem fóru í „fræga“ fagferð til Suður-Ameríku árið 2008, á óvart.