Beint í efni

Nýtt verð fyrir umframmjólk frá 1. júní 2023

09.06.2023

Auðhumla svf. tilkynnti í gær, 8. júní 2023 að stjórn Auðhumlu ákveðið að hækka verð á umframmjólk frá og með 1. júní 2023. Afurðastöðvarverð fyrir umframmjólk verði þannig að lágmarki kr. 85.- á hvern innlagðan lítra á yfirstandandi verðlagsári.

Um er að ræða hækkun um 10 kr./lítra frá fyrri ákvörðun stjórnarinnar þann 2. febrúar 2023. Þetta verð mun gilda þangað til annað verður ákveðið en þetta verð mun ekki lækka á yfirstandandi verðlagsári. Taka skal tillit til efnainnihalds mjólkurinnar líkt og hefðbundið er og út frá þessu verði skal jafnframt reikna gæðaálag og verðfellingar.
Uppbætur verða svo greiddar eftir að lokauppgjör ársins hefur farið fram ef tilefni gefst til.

Í tilkynningunni er jafnframt bent á að auk þessa afurðaverðs fái mjólkurframleiðendur u.þ.b. 20 kr. í beingreiðslur á hvern innveginn lítra, óháð greiðslumarki, þannig að heildarverð umframmjólkur verður þannig u.þ.b. 105 kr./lítra.

Helstu rökin fyrir þessari hækkun á umframmjólk skv. tilkynningu Auðhumlu er góð sala á mjólkurvörum undanfarnar vikur og mánuði sem og óhagstætt tíðarfar sunnan- og vestanlands sem getur mögulega haft áhrif á fóðuröflun sumarsins. Innlögð mjólk fyrstu 22 vikur ársins 2023 eru rúmar 66,0 millj. lítra eða 44,3% af heildargreiðslumarki. Um er að ræða 2,15% aukningu í innlagðri mjólk miðað við fyrstu 22 vikur ársins 2022.

Áfram verður fylgst grannt með sölu og birgðahaldi sem og forsendum útflutnings mjólkurvara m.t.t. þróunar heimsmarkaðsverðs, kostnaðar- og gegnisþróunar á komandi mánuðum og misserum.

Að lokum segir í tilkynningunni:
"Ástæða er til að hvetja mjólkurframleiðendur til að nýta framleiðsluaðstæður sínar eins og framast er unnt til að fullnýta greiðslumark sitt. Samkvæmt ofansögðu eiga mjólkurframleiðendur jafnframt vísar 105 kr/lítra fyrir alla umframmjólk sem þeir leggja inn. Að auki mun það greiðslumark sem einhverjir ná ekki að fullnýta deilast út til þeirra sem framleiða umframmjólk í takt við það greiðslumark sem þeir eiga. Á árinu 2022 nam útjöfnunin 6,7 milljónir lítra - sem var óvenju mikið - en það þýddi að mjólkurframleiðendur sem fóru u.þ.b. 16% fram yfir sitt greiðslumark fengu það greitt fullu verði. Á það ber þó að líta að greiðslumark ársins 2023 var aukið um 2,5 milljónir lítra frá fyrra ári."