Nýtt útlit á vef Landssambands kúabænda – Leiðari formanns
03.03.2011
Vefur Landssambands kúabænda hefur nú fengið nýtt útlit. Verið er að vinna að breytingunum þessa dagana og er vonast til að þær verði að fullu frágengnar á næstu dögum. Meðal nýjunga á vefnum er Leiðarinn, þar sem kjörnir fulltrúar Landssambandsins munu rita pistla um málefni greinarinnar. Formaður LK, Sigurður Loftsson ríður á vaðið með pistli um nýja reglugerð um kvótamarkað. Í honum segir m.a. “ Ljóst er að sú mikla stífni sem einkennt hefur ákvarðanir ráðuneytisins í þessu efni hefur komið mörgum kúabændum illa. Á það bæði við um þá sem hugðust aðlaga greiðslumark sitt að framleiðslu með kaupum, en ekki síður hefur þessi staða haft erfiðleika í för með sér fyrir fólk sem ákveðið hefur að selja greiðslumark sitt af heilsufars-, aldurs- eða búrekstarlegum ástæðum. Miklu skiptir fyrir fólk í þessari aðsöðu að hafa næg tækifæri til viðskipta, áður en farið er að ráðstafa bústofni eða taka aðrar rekstrarlegar ákvarðanir.
Þá er „Áður fyrr“ nýjung, þar sem fréttir fyrri ára eru rifjaðar upp, annars vegar fyrir 5 árum og hins vegar fyrir 8 árum, en þess má geta að naut.is fagnar 10 ára afmæli á þessu ári. Eldra útlit hafði verið við lýði síðan á jólaföstunni 2005. Stjórn og starfsmenn Landssambands kúabænda vonast til þess að nýtt útlit falli notendum vel í geð.