Nýtt mjólkursamlag stofnað utan greiðslumarkskerfisins!
02.04.2005
Nú hefur formlega verið stofnað nýtt mjólkursamlag sem mun sérhæfa sig í framleiðslu og sölu á ostum fyrir innanlandsmarkað. Mjólkursamlagið mun starfa utan greiðslumarkskerfis landbúnaðarins og nýtur því ekki framleiðslustyrkja frá hinu opinbera.
Sótt hefur verið um leyfi til heilbrigðisyfirvalda til starfrækslu mjólkurstöðvar Mjólku og er þess vænst að það leyfi fáist innan tíðar. Gangi það eftir er stefnt að því að ostaframleiðslan hefjist nú á vormánuðum og að fyrstu vörurnar frá fyrirtækinu komi á markað í byrjun sumars. Fyrst um sinn mun fyrirtækið einbeita sér að framleiðslu einnar ostategundar en stefnt er að auknu vöruúrvali strax á næsta ári. – af vef mbl.is
Af vef ruv.is
Nýtt mjólkursamlag, Mjólka ehf., hefur verið stofnað og á að starfa utan styrkjakerfis landbúnaðarins. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á ostum og er reiknað með að framleiða úr um 1,5 miljón lítra af mjólk á ári. Mjólka verður með eigin mjólkurframleiðslu og er gert ráð fyrir að búið eigi 100 mjólkurkýr þegar starfsemin er komin í fullan gang.
Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, segir að þegar hafi 50 kýr verið keyptar. Ólafur segir mjólkurframleiðsluna verða á jörð eigendanna, Eyjum í Kjós.
Reksturinn verður að öllu leyti utan styrkjakerfis landbúnaðarins og segir Ólafur það ódýrara og hagkvæmara heldur en að kaupa mjólkurkvóta og fá styrki til framleiðslunnar. Verð á kvóta sé orðið svo hátt, að 15 ár hið minnsta taki að fá fjárfestinguna í kvótanum til baka með styrkjum.
Af visir.is
Nýtt mjólkursamlag, Mjólka ehf., hefur verið stofnað í Kjósinni. Það sem er óvenjulegt við þetta samlag er að það verður starfrækt utan greiðslumarkskerfis landbúnaðarins og þar með án framleiðslustyrkja frá hinum opinbera.
Fjölskyldan á Eyjum II í Kjós, stofnendur Mjólku, vonast til að fá starfsleyfi innan tíðar en mjólkurframleiðsla er þegar hafin. Keyptar hafa verið 50 mjólkurkýr í búið og er stefnt að því að fjölga þeim í hundrað.
Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, segir að aðstandendur mjólkursamlagsins telji að miðað við þann kostnað sem menn leggi í til að kaupa sér framleiðslurétt í dag sé vel mögulegt að reka mjólkursamlagið. Aðstandendurnir hafi lagst yfir dæmið og telji að á þessum markaði séu sóknarfæri og þetta verði nýr valkostur fyrir neytendur.
Aðspurður hvort munur verði á vörum Mjólku og vörum annarra segir Ólafur svo ekki vera. Íslenskur mjólkuriðnaður hafi verið svo lánsamur að koma með á markað mjög frambærilegar vörur sem séu með því besta sem gerist í heiminum. Það leggi mikla kröfu á herðar stjórnenda hins nýja mjólkursamlags og það muni reyna að standast samanburðinn og bjóða sambærilegt verð.