Nýtt mælitæki mjólkursýna í notkun í maí
02.05.2005
Rannsóknarstofa mjólkuriðnaðarins er nú að endurnýja tækjabúnað sinn (þann sem mælir efnaþætti og frumutölu) eftir 11 ára notkun. Nýju tækin eru mun fullkomnari og skila nákvæmari mælingum. Það á fyrst og fremst við um úrefnismælingarnar, sem hafa ekki verið nógu góðar, og á köflum beinlínis gallaðar. Hin nýja tækni býður auk þess
uppá tvo nýja mælingarþætti, kasein og fríar fitusýrur (lausar fitusýrur).
Athugið: Fyrst um sinn verða tölurnar fyrir þessa efnaþætti ekki nýttar til neins, aðeins haldið til haga. Síðar verður ákveðið hvernig niðurstöðurnar verða hagnýttar.
KASEIN
er meginhluti próteinsins í mjólkinni og sá hluti þess sem nýtist bezt í afurðavinnslunni (einkum í ostagerð). Próteinið er verðmætasti efnaþáttur mjólkurinnar og hann þarf að kanna til hlítar, bæði magn próteinsins og samsetningu þess. Þessar mælingar kunna að reynast gagnlegar.
FRÍAR FITUSÝRUR, ffs
(e. free fatty acids, ffa) geta valdið bragðgöllum í mjólk. Ýmsir ytri þættir, svo sem harkaleg meðferð mjólkurinnar, loftinnblöndun o.fl. geta valdið því að mjólkurfitan klofnar í eindir sínar, og þar með verða fitusýrur lausar. Notkun mjaltaþjóna er talin geta aukið magn fitusýra í mjólkinni en talið er að hægt sé að bæta úr því. Lítil vitneskja liggur fyrir um magn óbundinna fitusýra í íslenzkri mjólk.
Nánari fróðleik um þessa efnaþætti og hugsanlega nýtingu mælinganna verður komið á framfæri síðar, og eftir því sem reynslan af mælingunum gefur tilefni til.
Breytt niðurstöðuútskrift
Niðurstöðuútskriftin fyrir kýrsýnin breytist auðvitað með nýjum mælingarþáttum sem bætast við. En auk þess hefur töludálkunum verið raðað þannig að frumutalan kemur fremst, þ.e. sem næst dálkunum með nöfnum og númerum kúnna.
Ekkert mælt dagana 9.-10. mai
Þessa daga (mánudag og þriðjudag) verður nýi búnaðurinn settur upp og ekkert mælt. Síðbúin sýni úr apríl-mælingu, sem kunna að berast á þessum tíma, verða því að bíða.
Sein kassaútsending í maí
Kassarnir eru nú sendir út 6. maí, nokkru seinna en venjulega. Þetta er gert til að tryggja að ekki verði mikið sýnainnstreymi á meðan ekkert er mælt, svo sýnin verði sem ferskust við mælingu. Við væntum skilnings á þessu.
12 mælingar á ári
Rannsóknarstofan hefur síðustu misserin aukið mjög þjónustuna við skýrsluhaldara, eftir því sem svigrúm til þess hefur skapazt. Mælt er í sérhverjum mánuði, sem er meira en gerist í nálægum löndum. Skýrsluhaldið varðar eitt mesta hagsmunamál kúabænda og eru þeir hvattir til að notfæra sér þjónustuna til fulls.