Beint í efni

Nýtt kynbótamat fyrir endingu

24.09.2010

Nýtt kynbótamat fyrir endingu mjólkurkúa hefur nú litið dagsins ljós. Eins og flestir þekkja, er ending skilgreind sem tímabilið frá því kýrin ber sínum fyrsta kálfi, þar til henni er fargað. Unnið er með sk. feðralíkan (e. sire model) sem þýðir að einungis nautin fá einkunn, öfugt við aðra eiginleika í kynbótamatinu þar sem notast er við sk. einstaklingslíkan (e. animal model), þar sem allir gripir í gagnasafni fá kynbótamat. Í gagnasafninu eru upplýsingar um 81.642 kýr, sem borið hafa 1. kálfi frá 1. janúar 1990 til september 2010. Þær eru undan 519 nautum og er listi með þeim og einkunnum þessara nauta að finna hér.  

Undanfarin ár hefur ending kúnna verið tiltölulega stöðug, í kringum 1000 daga (2 ár og 9 mánuði), sem er sambærilegt við endingu kúa í nágrannalöndunum. Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig þessi mál hafa þróast það sem af er þessum áratug. Undanfarin ár hafa kvígur verið 27-28 mánaða að jafnaði við fyrsta burðinn, þannig að þær verða að meðaltali 5 ára gamlar.

 

Vinnuhópur fagráðs um ræktunarmál mun síðan funda á Hesti í næstu viku og fara yfir niðurstöður kynbótamatsins. Í framhaldi af því verður gefin út ný Nautaskrá.