Beint í efni

Nýtt heimsmet í sáningu

05.05.2012

Þýsku vélaverksmiðjurnar Claas og Horsch settu á dögunum nýtt heimsmet í sáningu á maís þegar starfsmönnum þeirra tókst að sá í 448,29 hektara á einum sólarhring! Metið var sett í Rússlandi og svo metið væri tekið gilt þurfti sáningin eðlilega að standast öll mál. Meðalhraði við sáninguna var 15 km/klst og gæði sáningarinnar miðaðist við að sáðdýpt og bil á milli fræja væri innan marka. Þetta tókst afar vel og fór 94% allra maískornanna í sömu sáðdýpt.

 

Svo unnt sé að sá í svona stórt svæði á einum sólarhring þarf vélar af stærri gerðinni og var sáðvélin af gerðinni Horsch Maestro 24 SW með 18 metra vinnslubreidd. Sáðvélin setur jafnframt niður áburð með fræinu en á vélinni er 7 þúsund lítra áburðartankur og 2 þúsund lítra tankur fyrir sáðkorn og dugar skammturinn í u.þ.b. 50 hektara. Til þess að draga þessa gríðarstóru vél var svo notuð Claas Xerion 5000 dráttarvél en olíunotkun vélarinnar var 3,17 lítrar á hektarann/SS.