Nýtingarhlutfall mjólkur of breytilegt?
17.04.2012
Þegar skoðaðar eru niðurstöður skýrsluhalds Bændasamtakanna og þær bornar við skráningar um innvigtun búa má reikna út svokallað nýtingarhlutfall mjólkur. Alla jafna ætti þetta hlutfall að vera í kringum 90-95% en einstaka tilfelli geta farið út fyrir þetta hlutfall s.s. vegna mikillar framleiðslu (hærra hlutfall) eða óvenju mikilla heimanota mjólkur eða sjúkdómastöðu (mjólk hellt niður). Þegar nýtingarhlutfallið fer yfir 98% eða undir 80% er hinsvegar nánast undantekningalaust skýringa að finna í bilunum í mjólkurmælum eða röngum skráningum.
Meðalnýtingarhlutfall mjaltaþjónabúa hér á landi árið 2011 var 92,8% og því á afar eðlilegu róli. Hinsvegar voru 14 af 97 búum (sem eru í skýrsluhaldinu) með nýtingarhlutfall undir 85% og þar af 8 með nýtingarhlutfall undir 80%. Á hinn bóginn voru einnig nokkur bú að leggja inn nánast alla þá mjólk sem skýrsluhaldið sagði þau framleiða. Átta bú voru með nýtingarhlutfall yfir 98% og þar af helmingur með meira en 100%! Þetta má trúlega skýra með því að mjólkurmagnið er ranglega mælt og í þessum tilfellum vanmetin skýrsluhaldsmjólk. Upplýsingar um nýtingarhlutfall mjólkur eru ekki almennt teknar saman hér á landi en slíkt er gert víða erlendis.
Hver og einn bóndi getur þó hæglega skoðað sitt bú og reiknað út hvort reiknuð framleiðsla síns bús sé svipuð og lögð var inn í afurðastöð árið 2011. Sé magnið langt frá 92% (<85% eða >96%) er full ástæða til þess að skoða málið og klárlega sé hlutfallið lægra en 80% eða hærra en 98%. Sé svo, er nærtækast að hafa samband við næsta mjólkureftirlitsmann og láta skoða mjólkurmælana þar sem líkurnar eru mestar á því að þeir mæli ekki rétt/SS.