Beint í efni

Nýta sólarorku í raforkuframleiðslu fyrir kúabúið

04.06.2011

Kúabúiið Lakeside Dairy sem er í Hanford í Kalíforníu, Bandaríkjunum, fer ekki alveg troðnar slóðir þegar kemur að búskaparháttum. Fyrir það fyrsta er búið, sem er í eigu einnar fjölskyldu, með 7 þúsund kýr og í annan stað er sólarorkan notuð til þess að framleiða stærsta hluta þess rafmagns sem þarf til á búinu. Með jafn stórt bú er dagljóst að orkuþörf þess er gríðarlega mikil en reiknuð þörf búsins er um 1,2 MW. Í samstarfi við sólarrafhlöðufyrirtækið SPG Solar hefur nú verið komið upp 3.240 móttökurum sem ná að framleiða 891 kílówatt og nægir sú framleiðsla til þess að dekka um 75% orkunotkunar búsins.

 

Að sögn Mike Monteiro, kúabóndans í Lakeside Dairy, var þessi aðgerð nauðsynleg til þess að berjast við síhækkandi verð á aðföngum, s.s. rafmagni. Í viðtali í blaði Rabobank í Bandaríkjunum, sem fjármagnar framkvæmdina, er haft eftir Mike: „Framleiðsla rafmagns með sólarorku mun bæði tryggja okkur aðgengi að rafmagni til framtíðar og gera okkur óháð verðsveiflum á markaðinum með rafmagn til lengri tíma litið“.

 

Svæðið sem sólarspeglarnir teppa er all stórt eða 1,6 hektarar en þeir duga s.s. til þess að framleiða allt rafmagn fyrir annars all stóra mjaltaaðstöðu (rúmir 1.000 fermetrar), loftræstiviftur, vatnsdælukerfi fjóssins og mykjuskilju en á hverjum degi eru 50 tonn af þurrefni unnin úr mykju búsins og með því er umhverfisálag þessa stóra fjóss takmarkað að hluta til amk./SS.