Nýsjálenskir kúabændur hvergi nærri hættir!
29.11.2010
Framleiðendasamvinnufélagið Fonterra hefur nú gert samkomulag við stærsta indverska samvinnufélag bænda á sviði áburðarframleiðslu (IFFCO) og GDH (Global Dairy Health) um að skoða hagkvæmni þess að stofna framsækið kúabú í Indlandi. Samstarfsverkefnið er af svipuðum toga og verkefnin sem áður hefur verið greint frá í Kína, þar sem Nýsjálendingarnir stefna að því að koma upp 3.000 kúa einingum með tilheyrandi
úrvinnslu og störfum fyrir heimamenn.
Samkvæmt talsmönnum Fonterra er Indland ákaflega áhugaverður og ört vaxandi markaður fyrir mjólkurafurðir. Auk þess sé samkomulag við IFFCO áhugavert í því ljósi að þetta er stærsta samvinnufélag bænda í heiminum með rúmlega 50 milljón bændur sem meðlimi.