Nýsjálenskir bændur fá 64% hærra verð fyrir mjólkina
11.04.2008
Nýsjálenski mjólkurrisinn Fonterra, sem vinnur úr u.þ.b. 95% af mjólkinni sem framleidd er þar í landi, hefur tilkynnt að mjólkurverðið sem greitt verður fyrir framleiðslu þessa framleiðsluárs (júlí 2007-maí 2008) verði 7,30 NZD pr. kg verðefna, sem jafngildir 64% verðhækkun frá síðasta framleiðsluári. Þetta verð jafngildir u.þ.b. 44 krónum á lítra, og er það langhæsta sem sést hefur þar í landi.
Að sögn stjórnarformanns Fonterra, Henry van der Heyden kúabónda, hafa þurrkar á Nýja-Sjálandi valdið minni framleiðslu á þessu ári en vænst var og því hafi myndast bil milli framboðs og eftirspurnar, sem hafi leitt af sér verðhækkanir. Ekki er loku fyrir það skotið að verðið fyrir framleiðslu þessa árs verði ennþá hærra en þetta. Stjórn Fonterra mun meta það í ljósi ástands á fjármálamörkuðum heimsins á næstunni.
Heimild: www.dairyindustrynewsletter.com