Nýsjálensk yfirvöld koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu í landbúnaði
03.02.2011
Kínverska fyrirtækið Pengxin International Group Limited, sem er staðsett í Sjanghæ, gerði nýverið yfirtökutilboð í 16 kúabú í Nýja-Sjálandi en hefur orðið lítt ágengt með kaupin þar sem þarlend yfirvöld hafa barist gegn erlendri fjárfestingu í landbúnaðinum. Nýverið komu yfirvöld í Nýja-Sjálandi í veg fyrir að annað erlent fyrirtæki keypti kúabúin, en skýringin á þeirri ákvörðun fólst í því að forsvarsmenn fyrirtækisins voru ekki
taldir standast kröfur sem gerðar eru til stjórnenda fyrirtækja þar sem þeir höfðu áður staðið í rekstri sem leiddi til gjaldþrots!
Kúabúin sem um ræðir urðu gjaldþrota á síðasta ári, en samanlagðar skuldir þeirra nema nærri átján milljörðum íslenskra króna (113,2 milljónum Evra). Mjólkurframleiðsla er mikilvægasta útflutningsgrein Nýsjálendinga og hyggjast þeir verja framleiðsluna fyrir uppkaupum erlendis frá með öllum ráðum. Forsætisráðherra landsins, John Key, hefur m.a. látið hafa eftir sér að Ný-Sjálendingar ætli ekki að enda sem einhverskonar leiguliðar í þeirra eigin landi og muni ríkisstjórnin standa föst á hörðum reglum varðandi erlenda eignaraðild að þarlendum landbúnaði.