Beint í efni

Nýsjálendingar juku veltuna í Kína um 191%

18.10.2017

Nýtt uppgjör afurðafélagsins Fonterra frá Nýja-Sjálandi sýnir vel hvað nýsjálenskir kúabændur með Fonterra í broddi fylkingar hafa náð góðum tökum á kínverska markaðinum. Þannig er t.d. helmingur alls osts sem er notaður á pítsur í Kína frá Nýja-Sjálandi og nam heildarútflutningur Fonterra 51 þúsund tonnum af osti síðasta ár. Næstu lönd á eftir Nýja-Sjálandi, þegar horft er til innflutnings á ostum til Kína, eru Ástralía, Bandaríkin og Frakkland.

Verðmæti markaðarins fyrir bræðsluosta í Kína er talinn vera nú í kringum 250-300 milljónir dollara á ári eða um 26-31 milljarðar íslenskra króna. Þessi hluti mjólkurvörumarkaðs Kína vex afar ört og hefur Fonterra þegar fjárfest mikið til þess að geta sinnt kínverska markaðinum. Þannig hefur félagið t.d. byggt nýja vinnslustöð fyrir mozarella ost fyrir um 25 milljarða íslenskra króna og er auk þess að byggja upp umfangsmikla framleiðslu á Camenbert osti. Félagið áætlar að geta framleitt 48 þúsund tonn af Camenbert osti fyrir kínverska markaðinn árið 2019 og gangi þessi áform eftir mun Fonterra margfalda útflutning sinn á ostum til Kína á næstu örfáum árum/SS.