Nýr valkostur í kúafóðri
09.07.2008
Eftirfarandi fréttatilkynning hefur borist frá Sláturfélagi Suðurlands:
„Valkostir bænda í kjarnfóðurkaupum hafa verið takmarkaðir þar til nú. Að frumkvæði bænda hóf SS innflutning á kjarnfóðri til að auka valkosti í kjarnfóðurkaupum. Bændur geta sparað sér umtalsverðar fjárhæðir í kjarnfóðurkaupum með því að kaupa kjarnfóður frá SS þar sem reynsla þeirra bænda sem nú þegar hafa tekið það í notkun er mjög góð.
Í samstarfi við Dansk Landbrugs Grovvareselskab (DLG) hefur SS hafið innflutning á kjarnfóðri. DLG er stærsti framleiðandinn á kjarnfóðri í Danmörku með um 29.000 bændur sem félagsmenn. Boðið er uppá tvær tegundir af kúafóðri (K16 og K20) ásamt kálfa- og nautaeldiskögglum en blöndurnarnar hafa verið aðlagaðar íslenskum aðstæðum með tilliti til steinefnainnihalds sem er nokkuð hærra hér á landi en í Danmörku.
Einn fóðurbíll er komin í notkun en 2 bílar bætast við í ágúst og þá hefst dreifing fóðursins í öllum landshlutum en fram í september er hún bundin við Suður- og Vesturland.
Flutningur á lausu fóðri er í lokuðu ferli. Fóðrið er sett í gáma í verksmiðju DLG í Danmörku strax eftir framleiðslu. Inn í gámnum er sterkur plastpoki sem fóðrinu er dælt inn í sem tryggir að fóðrið komist ekki í neina snertingu við gáminn eða utanaðkomandi efni eða óæskilega hluti. Fóðrinu er síðan dælt beint á síló kaupanda úr gámnum með hefðbundnum hætti í því magni sem óskað er eftir. Ferlið allt og gæði hráefna tryggir ferskleika fóðursins til kaupanda. Fullkomið gæðaeftirlit DLG er á bak við alla framleiðsluna og tekið er sýni af hverjum einasta farmi áður en hann er sendur til Íslands.
Nánari upplýsingar um kjarnfóðrið er að finna á heimasíðu SS„.
Einnig eru upplýsingar um verð og efnainnihald fóðursins frá SS að finna hér á heimasíðu LK.