
Nýr sérfræðingur í nautgriparækt
03.01.2022
Guðrún Björg Egilsdóttir er nýr sérfræðingur á sviði búgreinadeildar Bændasamtaka Íslands þar sem hún mun sinna nautgriparæktinni. Tekur hún við af Margréti Gísladóttur sem mun láta af störfum eftir 5 ár hjá Landsambandi kúabænda og síðar Bændasamtökum Íslands.
Guðrún Björg lauk nýverið meistaranámi í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands en áður bakkalárgráðu í líffræði við Háskóla Íslands. Hún er fædd og uppalin á Daufá í Skagafirði en þar er stundaður kúabúskapur, þekkir hún því búgreinina vel.
„Ég hlakka til að starfa fyrir bændur og takast á við ný og spennandi verkefni fyrir íslenska kúabændur og vona að ég reynist þeim vel,“ segir Guðrún Björg.
„Um leið og stjórn kúabændadeildar BÍ býður Guðrúnu Björgu velkomna til starfa þökkum við Margréti Gísladóttur fyrir vel unnin störf fyrir greinina undanfarin fimm ár og óska henni velfarnaðar á nýjum vígstöðvum.“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður kúabænda.