Nýr leiðari: Tímamót í verðlagningu mjólkurafurða?
07.06.2012
Jóhann Nikulásson bóndi í Stóru-Hildisey 2 og stjórnarmaður í Landssambandi kúabænda ritar nýjasta leiðarann og ber sá heitið Tímamót í verðlagningu mjólkurafurða? Jóhann veltir fyrir sér möguleikum kúabænda til bættrar afkomu og segir m.a.: Undirritaður er þeirrar skoðunar að afkoma greinarinnar verði á komandi árum vart tryggð með verðákvörðunum verðlagsnefndar búvöru. Raunveruleikinn er því miður sá að í verðbólgu undangenginna ára er sú tollvernd sem verndað hefur innlenda mjólkurframleiðslu um langa hríð vart svipur hjá sjón frá því sem áður var. Ástæðan er sú að tollarnir eru að stærstum hluta föst krónutala sem haldist hefur óbreytt frá því GATT samningarnir tóku gildi árið 1995.
Áfram segir: Í mínum huga er enginn vafi um að verðþróun mjólkurvara hér á landi mun, af síauknum þunga, taka mið af því framleiðendaverði sem greitt er í þeim löndum sem umsvifamest eru í útflutningi mjólkurvara. Vegna alls þessa stöndum við því að mínu mati á tímamótum í verðlagsmálum mjólkurafurða og vart verður undan því vikist að horfa í eigin rann um hvað betur megi fara í okkar rekstri. Leiðarahöfundur veltir fyrir sér ýmsum leiðum til bættrar afkomu s.s. stórbætt nýting á tækjum og búnaði til heyskapar, að kvígur beri fyrsta kálfinum umtalsvert yngri en nú er raunin, að átak verði gert til að draga úr júgurbólgu og efnaskiptasjúkdómum sem kosta greinina vel á annan milljarð árlega, að hærra hlutfall mjólkur fari í úrvalsflokk og hlutfall fitu og próteins hækki frá því sem nú er og að nautakjötsframleiðslan standi styrkari fótum á markaði en nú er. Að lokum segir svo: Til lengri tíma litið þá er afar nauðsynlegt að komast út úr kvótakerfinu, sá gríðarlegi kostnaður sem greinin ber vegna viðskipta með greiðslumark er eitthvað sem gengur ekki upp til lengdar. Eina raunhæfa leiðin út úr þeim ógöngum er aukinn útflutningur mjólkurvara og afnám lögbundins lágmarksverðs til mjólkurframleiðenda. Veruleg lækkun framleiðslukostnaðar er alger grunnforsenda þess að útflutningur mjólkurafurða geti nokkru sinni orðið arðbær. Nauðsynlegt er ennfremur að leita allra leiða til að viðhalda þeim stuðningi sem búgreinin nýtur af hálfu hins opinbera. Síðast, en ekki síst, þá verður ekki hjá því komist að laga helstu gallana á okkar ágæta kúastofni. Ég er þeirrar skoðunar að enginn einn þáttur spili jafn stórt hlutverk til lækkunar framleiðslukostnaðar og innflutningur erfðaefnis, eins og sýnt hefur verið með rannsóknum. Það er borin von að nautgriparæktin í landinu geti nokkru sinni staðist erlenda samkeppni ef framleiðslugripirnir búa ekki yfir áþekkum eiginleikum hvað varðar afköst, vaxtarhraða, fóðurnýtingu og vinnuþörf og þeir gripir sem væntanlegir samkeppnisaðilar hafa yfir að ráða.