Beint í efni

Nýr leiðari: Sameinuð hagsmunagæsla bænda

01.05.2021

Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður LK, ritarar leiðarann í maí á naut.is og fer þar yfir félagskerfisbreytingar hjá bændum í ljósi þess að á aðalfundi LK í byrjun apríl var ákveðið að starfsemi LK myndi færast undir BÍ um mitt þetta ár. Þar segir hún: „Fleiri búgreinafélög hafa nú á undanförnum vikum tekið ákvörðun um sameiningu við BÍ á aðalfundum um og það hefur verið ánægjulegt að sjá og finna hvað samstaða meðal búgreina um þessa vegferð hefur verið mikil. Á undanförnum mánuðum höfum við sannanlega fundið að með nánara samstarfi búgreinanna getum við lyft grettistaki. Þar má nefna bæði viðbragðsteymi BÍ vegna Covid þar sem fjöldi búgreina átti fulltrúa sem og vinna í kringum tollamál á seinnihluta síðasta árs. Mjög svo aukin samskipti meðal einstakra búgreina og BÍ hafa sannanlega skilað sér í árangri og það er von mín að með formlegri sameiningu munum við ná að styrkja hagsmunagæslu bænda mun meir.“

Þá segir hún ennfremur: „Það gefur hagsmunabaráttu landbúnaðarins stóraukið vægi ef bændur standa saman að baki hennar og að fyrir samtökin starfi öflugur mannauður með sérþekkingu á fjölbreyttum sviðum, sem er nútíma hagsmunabaráttu nauðsynleg. Það er mín trú að ef vel til tekst getum við stóreflt og styrkt hagsmunabaráttu landbúnaðarins.“

Um verkefnin framundan hjá LK segir Herdís: „Frá því að ég byrjaði að taka þátt í félagsstarfi kúabænda hafa umhverfis- og ímyndamál verið mér hugleikin. Umræðan um þessi mál meðal kúabænda hefur að mínu mati þróast hratt síðustu ár og ég er stolt af kúabændum hversu umhugað þeim er um orðspor greinarinnar og umhverfi sitt. Það er mín skoðun að eitt stærsta hagsmunamál okkar kúabænda og framtíð greinarinnar byggist á því hvernig við tökumst á við umhverfismál og nálgumst umræðuna sem þeim málaflokk fylgja.“

Þú getur lesið leiðarann í heild sinni hér á forsíðu naut.is eða með því að smella hér.