Beint í efni

Nýr leiðari – Nýliðun í mjólkurframleiðslu

02.05.2011

Leiðarahöfundur naut.is í dag er Jóhann Nikulásson, stjórnarmaður í Landssambandi kúabænda og bóndi í Stóru-Hildisey 2 í Austur-Landeyjum. Hann skrifar um nýliðun í mjólkurframleiðslu og segir m.a.:  Því er til að svara að það hefur ávallt verið stefna Landssambands kúabænda að nýliðun verði best tryggð, með því að afkoma greinarinnar sé með þeim hætti að hún sé samkeppnisfær við aðrar atvinnugreinar um fólk og fjármagn. Þá segir einnig: Að mínu mati er einn mikilvægasti þátturinn í sambandi við nýliðun gott aðgengi að lánsfé á hagstæðum kjörum, þar er verk að vinna. Það þarf að koma fjármálafyrirtækjum í skilning um að eitthvert albesta veð sem til er í veröldinni er land og því ætti að vera hægt að lána út á land sérstaklega, á mun betri kjörum en út á margt annað.

Þá skrifar Jóhann einnig um fram komnar hugmyndir að breytingum á jarða- og ábúðalögum: Það verður til að mynda ekki betur séð en ef þau frumvarpsdrög um breytingar á jarða- og ábúðalögum sem kynnt voru nýlega ná fram að ganga þá muni þrengjast mjög um lánamöguleika með ófyrirsjánlegum áhrifum á nýliðun og uppbyggingu á allri atvinnustarfsemi í sveitum landsins.