Beint í efni

Nýr leiðari: Mjólkuruppgjör í skoðun og aðalfundur framundan

13.03.2021

Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður LK, ritarar leiðarann í mars á naut.is og fer þar yfir mjólkuruppgjör ársins 2020, niðurstöðu Hæstaréttar í máli Mjólkursamsölunnar og loks breytingar á félagskerfi bænda sem verður til afgreiðslu á aðalfundi LK dagana 9.-10. apríl. Um mjólkuruppgjörið segir Herdís: „Stjórn LK sendi erindi á atvinnuvegaráðuneytið vegna málsins þann 26. febrúar sl. þar sem óskað var eftir að ráðstöfun þessi verði endurskoðuð, ellegar skýringum og rökstuðningi á því hvers vegna önnur reikniaðferð er notuð nú en þegar um lægri framleiðsluskyldu er að ræða. Var von á svari fyrir þessa helgi en það náðist ekki og gerum við ráð fyrir að það berist á mánudag.“

Um endurskoðun félagskerfis bænda segir að „stjórn LK telur réttast að leggja ekki niður samtökin en að þau verði hins vegar óvirkt félag. Það þýðir að núverandi sjóðir LK yrðu áfram á kennitölu LK og myndi stjórn deildar kúabænda þá hafa fullt forræði yfir þeim fjármunum. Stjórn deildarinnar yrði skipuð 5 manns, formanni og 4 meðstjórnendum sem kosnir yrðu á búgreinaþingi ár hvert, líkt og kosið er í stjórn LK á aðalfundum ár hvert í dag. Fulltrúar inná búgreinaþing yrðu kosnir í gegnum ákveðna svæðaskiptingu landsins til að tryggja landfræðilega dreifingu og svo yrðu búnaðarþingsfulltrúar deildar kúabænda kosnir á búgreinaþinginu, líkt og búnaðarþingsfulltrúar LK eru kosnir á aðalfundi í dag.“ Þá er boðað að LK muni kynna betur áherslur samtakanna fyrir félagsmönnum á næstu dögum og vikum.

Þú getur lesið leiðarann í heild sinni hér á forsíðu naut.is eða með því að smella hér.