Nýr leiðari: Leiðbeiningaþjónusta á skilorði
03.10.2011
Að þessu sinni ritar leiðara naut.is Jóhann Nikulásson í Stóru-Hildisey 2 og stjórnarmaður LK. Í honum gerir hann endurskoðun leiðbeiningaþjónustunnar að umtalsefni. Jóhann segir: „Bændasamtök Íslands kynntu nýverið fyrirhugaða endurskoðun á skipulagi og starfsemi
ráðgjafaþjónustunnar í landinu. Hafa samtökin fengið Ole Kristensen ráðgjafa frá Þekkingarsetri Landbúnaðarins í Danmörku til að stýra verkefninu. Þess má geta að Ole þessi hefur umtalsverða reynslu af hliðstæðri endurskoðunarvinnu innan dönsku ráðgjafaþjónustunnar á liðnum árum.
Landssamband kúabænda hefur um árabil vakið athygli á nauðsyn þess að fram fari endurskipulagning á allri starfsemi Bændasamtakanna. „Mjór er mikils vísir“ segir máltækið. Vonandi er þetta fyrsta skrefið á slíkri heildarendurskoðun. Það er því full ástæða til að fagna þessari ákvörðun“.
Áfram segir: „Hvað nautgriparæktina varðar þá er ég þess fullviss að við óbreytt fyrirkomulag sé það ekki spurning um hvort, heldur einungis hvenær kúabændur hugsi sér til hreyfings í þessum efnum. Það er í mínum huga umhugsunarefni að sú búgrein sem stendur undir bróðurparti tekjustofns leiðbeiningaþjónustunnar, að þar sé eftir því sem næst verður komist enginn ráðunautur í fullu starfi sem einvörðungu sinnir búgreininni“. Jóhann tekur dæmi af stærstu ráðgjafamiðstöðvum í Danmörku, þeim starfi á annan tug ráðgjafa með nautgriparæktina sem sérsvið. Slíkar miðstöðvar hafi mikinn hug á að þjónusta kúabændur í nágrannalöndunum. Hér á landi sé mikil þörf á öflugri ráðgjöf á flestum sviðum kúabúskapar, til þess að hana megi veita þurfi ráðunautar að fá mjög aukin tækifæri til sérhæfingar. Hann segist þeirrar skoðunar að þjónustugjöld eigi alfarið að standa undir þjónustunni, enda á fjárfesting í ráðgjöf að vera arðbær og „ekki er óalgengt viðmið við ráðgjafaþjónustu í nágrannalöndunum að fyrir hverja krónu sem bóndinn eyðir í ráðgjöf eigi hann að fá fjórar til baka í bættum rekstri“. Að lokum hvetur Jóhann bændur til að einhenda sér í verkefnið: „Sameinum kraftana því öflug leiðbeiningaþjónusta á að vera skilvirk, sérhæfð og á harðaspretti við að leita allra leiða til að auka hagkvæmni búvöruframleiðslunnar, þá mun hún sem og bændur landsins eiga bjarta framtíð fyrir sér“./BHB