Beint í efni

Nýr leiðari: Hverjar eru aðlögunarkröfur ESB?

08.09.2011

Leiðara naut.is að þessu sinni skrifar Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK. Tilefni leiðaraskrifa er útgáfa rýniskýrslu ESB um landbúnað hér á landi, bréf Jan Tobinski fastafulltrúa Póllands gagnvart ESB og yfirferð á framvinduskýrslu Króatíu í aðlögun landsins að ESB en Króatía sótti um aðild árið 2003. Í leiðaranum segir m.a.: Það er mat ESB að verulegur munur sé á ráðstöfunum þeim sem notaðar eru hér á landi til að styðja við landbúnað og hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu sambandsins, CAP. Sama gildi um stofnana- og lagaumhverfi allt. Með aðild Íslands að ESB þurfi að tryggja framgang hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu og kalli það á mikla aðlögun löggjafar, stjórnkerfis og stofnanaumhverfis landbúnaðarins hér á landi.

 

Áfram segir: Tekið er fram að Ísland hafi ekki látið í té neinar tímasettar áætlanir varðandi undirbúning þessarar aðlögunar. ESB tekur fram að slíkar áætlanir séu ófrávíkjanlegur grundvöllur viðræðna um landbúnaðarkaflann, til að tryggja að viðeigandi aðlögun fari fram á skikkanlegum tíma og í samræmi við þann ramma sem viðræðum um einstaka kafla er settur.

 

Í leiðaranum eru tilgreind nokkur atriði sem ESB telur grundvallaratriði fyrir viðræðum um landbúnaðarkaflann, að á stofn sé sett greiðslustofa landbúnaðarstuðnings, uppsetning stafræns landupplýsingakerfis og nýtt fyrirkomulag búreikninga. Þetta er sömu atriði sem síðan eru tínd til í framvinduskýrslu Króatíu fyrir árið 2010 en um hana segir:

 

Árangur aðlögunarinnar er metinn á grunni ákvarðana sem teknar hafa verið, löggjafar sem tekin hefur verið upp og ráðstöfunum sem hrint hefur verið í framkvæmd. Aðlögunarstyrkir ESB til Króatíu árið 2010 voru 154 milljónir evra, eða 24,6 milljarðar króna. Hlekkur á skýrsluna er hér aftast í pistlinum. Í henni segir m.a. um framvinduna í landbúnaðarmálum:

1. Á árinu 2010 var lögð fram ný landbúnaðarstefna fyrir árin 2010-13 sem hafi umbætur á núverandi stefnu að markmiði og aðlögun að CAP, sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins.

2. Vel miðaði í að setja á stofn greiðslustofu landbúnaðarstuðnings og að koma á fót stafrænu landupplýsingakerfi. Þessi tvö atriði eru lykillinn að áframhaldi viðræðna um þennan kafla. Uppsetning eftirlitskerfis gengur einnig vel.

3. Þokkalega gekk að koma á fót búreikningastofu, meiri mannafla er þó þörf í þetta verkefni að mati skýrsluhöfunda.

4. Vel miðaði að koma á fót sameiginlegu markaðsskipulagi (e. commom market organisation).

5. Skráningarkerfi vínbúgarða verður komið í fullan gang (e. fully functional) fyrir árslok 2010.

 

Af þessu má ráða, að allt tal um að aðlögunin geti farið fram eftir að íslenska þjóðin hefur gefið jáyrði sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu, er staðlausir stafir. Áfram segir: Þó það sé ekki sagt hér, þá liggur beint við að lokunarskilyrðin verði í grófum dráttum þau, að búið sé að aðlaga hlutina að því fyrirkomulagi sem gildir í hinu háa Evrópusambandi, áður en gengið er frá samningnum og hann staðfestur af öðrum aðildarríkjum. Það er eina leiðin fyrir ESB til að tryggja að fyrirkomulag hlutanna verði eins og það gerir kröfu um í aðildarríkjum bandalagsins. Þegar að þjóðaratkvæðagreiðslunni loksins kemur, standa kjósendur frammi fyrir orðnum hlut../BHB

 

Framvinduskýrsla Króatíu 2010

Bréf fastafulltrúa Póllands til íslenskra stjórnvalda

Rýniskýrsla Evrópusambandsins um landbúnað og dreifbýlisþróun