Beint í efni

Nýr leiðari: Heilbrigðiskröfur eftir hentugleikum

16.07.2012

Sigurður Loftsson, formaður LK hefur ritað nýjan leiðara á naut.is. Í honum gerir hann að umtalsefni nýlegar ráðstafanir stjórnvalda sem heimila ferðalöngum innflutning á ógerilsneyddum mjólkurafurðum. Sigurður bendir á að tíðni sýkinga af völdum matvæla eru óvíða fátíðari en hér á landi og bendir á að „stöðugt hefur verið aukið við kröfur um gæði hrámjólkur. Þessu hafa framleiðendur mætt með því að bæta þá aðstöðu og búnað sem tengist umhirðu mjólkurinnar og bæta aðbúnað gripanna. Er nú svo komið að gæði íslenskrar mjólkur standast fyllilega samanburð við það sem gerist meðal nágrannalanda okkar, þeirra landa sem fremst standa í þessum efnum á heimsvísu“. Þrátt fyrir þetta hefur verið í gildi bann við markaðssetningu afurða úr ógerilsneyddri mjólk í áratugi, að undirlagi íslenskra heilbrigðisyfirvalda. Vekja þessar ráðstafanir stjórnvalda því furðu. Enn sérkennilegri eru þó röksemdir embættismanna á gjörningnum. Enda veltir formaður LK fyrir

 

sér „hver skyldi svo aðdragandi þessarar aðgerðar vera? Fór fram mat á þeirri áhættu sem íslenskum neytendum er búin við þessa tilslökun? Er minni áhætta af neyslu ógerilsneyddra mjólkurafurða nú, en þegar bann var lagt við sölu þeirra á sínum tíma? Eða er það mat ráðuneytisins að gæði hrámjólkur séu meiri í þeim löndum sem sala þessara afurða er leyfð? Fór fram einhver skoðun á því? Hníga til þess einhver rök að mismuna með þessum hætti innlendum og erlendum mjólkurframleiðendum?“. Í lok leiðarans segir Sigurður svo: „Vilji íslenskra kúabænda er að sjálfsögðu að hlíta þeim gæðakröfum sem þeim eru settar, en jafnframt að uppfylla með sem ríkulegustum hætti óskir neytenda um vöruúrval og vörugæði. Ein helsta forsenda þess er að þær reglur sem um greinina eru settar, þar á meðal heilbrigðiskröfur, séu skýrar og byggi á málefnalegum forsendum, en taki ekki breytingum eftir hentugleikum stjórnvalda á hverjum tíma.“

 

Leiðari formanns LK