Beint í efni

Nýr leiðari – Haustfundir og stefnumörkun

08.11.2011

Leiðarann að þessu sinni ritar formaður samtakanna, Sigurður Loftsson og gerir hann nýliðna haustfundi LK og kynningu á stefnumörkun 2021 að umtalsefni. Alls voru haldnir 14 fundir víða um land og mættu á þá rúmlega 300 manns. Í umræðum á fundunum komu menn víða víð og gerðu verðlagsmál, kvótamarkað, dýralæknaþjónustu, ráðgjafastarfsemina og stöðu nautakjötsframleiðslunnar að umtalsefni. Þá komu fram þungar áhyggjur að markaðsfærslu mjólkur umfram greiðslumark á innanlandsmarkað og skeytingarleysi stjórnvalda í þeim efnum. Talsverðar umræður urðu einnig um stefnumörkunina, en megin leiðarstef hennar er að ná fram umtalsverðri lækkun á framleiðslukostnaði afurða, aukinni samkeppnishæfni greinarinnar og auka möguleika á að hafa arð af útflutningi.

 

Sigurður segir: „Í þessu efni þótti því nauðsynlegt að líta til allra þeirra þátta sem tengjast kostnaðarmyndun í greininni, hvort sem þeir þættu félagslega viðkvæmir eða ekki. Eðlilega sýnist sitt hverjum um það efni sem texti stefnumörkunarinnar ber með sér. Þannig komu fram í máli fundarmanna ýmsar vangaveltur um veigamikla þætti eins og kvótakerfið, beingreiðslur, verðlagningarfyrirkomulagið, markmið í ræktun kúastofnsins, bústærðir og nýliðun.“ Þá segir formaður LK í niðurlagi leiðarans: „Það er afar mikilvægt fyrir nautgriparæktina eins og aðrar framleiðslugreinar að marka sér stefnu til framtíðar. En til þess að stefnumörkun af þessu tagi sé lifandi þarf hún hinsvegar að vera í sífelldri endurskoðun og aðlögun að ríkjandi aðstæðum. Megin línan þarf hinsvegar að vera skýr og segja má að íslenskir kúabændur standi frammi fyrir þeirri spurningu hvort þeir vilji að áfram verði horft til þess, fyrst og fremst, að takmarka framleiðsluna við innanlandsmarkað eins og verið hefur, eða hvort vilji er til að greinin þróist til aukins vaxtar sem útflutningsgrein. Eins og áður sagði er megin stef hinnar nýju stefnumörkunar að auka samkeppnishæfni greinarinnar. Hinsvegar er ljóst að margir mikilvægustu hagkvæmniþættir hennar nást ekki fram, án þess að stjórnvöld skapi greininni það svigrúm sem nauðsynlegt er. Óvíst er að vilji sé til þess hjá þeim sem nú fara fyrir landstjórninni„./BHB