Beint í efni

Nýr leiðari: Er skynsamlegt að auka stuðning við kornrækt?

23.08.2011

Höfundur leiðarans að þessu sinni er Sveinbjörn Sigurðsson á Búvöllum í Aðaldal. Hann gerir hugmyndir um aukinn stuðning við kornræktina að umtalsefni: Litlar líkur eru á að bygg nái þroska að neinu ráði á þessu hausti hér Norðanlands. Sýnir það hversu vangæf sú ræktun getur verið þó svo að hún hafi lukkast sæmilega af og til. Hér í Þingeyjarsýslu var í vor sáð byggi í 160-170 ha. Það er talið að kosti um 100.000 kr. að sá í ha. þannig að þarna fara verulegir fjármunir í súginn. Það er talað um að nýta megi byggið sem grænfóður þegar það nær ekk þroska og minnka þannig tjónið en það verður þá að gerast það snemma að það sé lítið eða ekki skriðið, annars er það mín reynsla að slíkt er mjög ólystugt fóður. Áfram segir:  

Þær hugmyndir úr ráðuneyti Jóns Bjarnasonar að stórauka beri styrk til kornræktar, kemur því til þess að gera fáum bændum til nota. Það er mér er svosem ekki áhyggjuefni, nema fyrir þær sakir að ólíklega fæst til þess fjármagn nema taka það af öðrum ríkisframlögum sem flestir bændur njóta, þ.e. öðrum ræktunarframlögum eða beingreiðslum.  
Sveinbjörn veltir jafnframt fyrir sér umræðum um kjötmál, sem hafa verið mjög harkalegar að undanförnu: Að undanförnu hefur farið fram sterk umræða, einkum á meðal verslunar í landinu, um að afnema beri allar hömlur á að flytja inn kjöt á sama tíma og verulegur samdráttur er í sölu á kjöti hér á innanlandsmörkuðum. Það er kannski skiljanlegt að verslunaraðilar berjist fyrir þessu þar sem eingöngu er hugsað um stundargróðann, en að ýmsir framámenn í þjóðfélagi sem berst við atvinnuleysi og skort á gjaldeyri skuli taka undir þetta er lítt skiljanlegt. Ég held nú samt að bændur eigi svolitla sök á því hvernig þessi umræða hefur þróast á liðnum vikum með heldur klaufalegri framsetningu á annars nokkuð eðlilegri kröfu á hækkun á launalið sínum. Þetta segir okkur það að nú sem aldrei fyrr þurfi að vanda okkar málflutning þegar að svo veigamiklum þáttum kemur í afkomu bænda.