Beint í efni

Nýr leiðari – Beint frá býli og frábært Landsmót

05.07.2011

Guðný Helga Björnsdóttir bóndi á Bessastöðum, varaformaður LK, stjórnarmaður BÍ og formaður Fagráðs í nautgriparækt skrifar leiðara naut.is að þessu sinni. Í honum segir m.a. „Mikið sem það er lofsvert framtak hjá mörgum bændum, að bjóða neytendum að koma heim á hlað til sín og kaupa vörur beint af þeim. Víðast hvar er fyrirmyndar aðstaða heima á búunum til að taka á móti gestum, enda vænlegra til viðskipta að snyrtilegt sé heim í hlað að renna. Neytendur kynnast aðstæðum bóndans að einhverju leiti og sjá hvernig hann býr að sínum skepnum. Þannig geta þeir áttað sig á hvernig vöru þeir eru að kaupa“.

Þá segir einnig „Skýrt er í lögum að mjólk utan greiðslumarks skuli fara til útflutnings. Því er það ljóst að bændur sem selja mjólkurafurðir beint til neytenda, þurfa að skila skýrslum yfir mjólkurmagnið, sem notað er í heimavinnsluna. Þær skýrslur koma svo til grundvallar, ásamt skýrslum frá afurðastöðvum, við uppgjör á mjólkurframleiðslu búanna“. Leiðarahöfundur veltir einnig fyrir sér þeim mikla mun sem er á ræktunaráhuga í hrossaræktinni annars vegar og nautgriparæktinni hins vegar „Ég held að óhætt sé að segja að ræktunarframfarir í hrossastofninum séu gífurlegar. En hvers vegna er ekki stemmingin meiri í ræktun nautgripa en hún er? Sumir bændur eru að kúldrast með heimanaut í kvígunum sínum í stað þess að nota besta erfðaefnið sem völ er á.“ Að lokum skorar leiðarahöfundur á kúabændur að hætta notkun heimanauta, þannig er hægt að stækka virka erfðahópinn í nautgriparæktinni og ná meiri árangri í kynbótunum, öllum kúabændum til hagsbóta.