Beint í efni

Nýr leiðari á naut.is – útivist nautgripa og ímyndarmál

19.05.2011

Nýr leiðari er kominn á naut.is. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK skrifar þar um útivist nautgripa og ímyndarmál. Þar segir m.a.:

 

Fyrir rúmum áratug stóðu velflestar kýr landsmanna í básafjósum, nú er það hlutfall komið niður fyrir helming. Kúm í lausagöngu hefur fjölgað að sama skapi. Ný fjós hafa verið byggð og þau eldri endurbætt. Aðbúnaður nautgripa hefur því tekið miklum framförum á undanförnum árum og þeir hafa það betra en áður og fyrr. Því heyrast þau sjónarmið, að litlu skipti hvort nautgripir séu inni eða úti, árið um kring.

 

Útivistarumræðan snýst bara ekkert um það. Hún snýst um ímynd framleiðslunnar. Það er almennt viðhorf í samfélaginu, að það sé eðlilegur hluti af nautgripahaldi að gripirnir séu úti við yfir sumarmánuðina. Þar fyrir utan eru vel hirtir gripir í góðum haga ein besta auglýsingin sem greinin getur fengið; fyrir yfirgnæfandi hluta framleiðenda er hún sjálfsagður hluti af framleiðsluferlinu.