Beint í efni

Nýr búnaðarlagasamningur í höfn

21.10.2010

Skrifað var undir nýjan búnaðarlagasamning til tveggja ára 20. október síðastliðinn. Gildandi búnaðarlagasamningur hefur verið skertur verulega nú þegar en hann rennur út um næstu áramót. Eins og vísbendingar voru um í frumvarpi til fjárlaga komandi árs er um mjög verulegan niðurskurð að ræða frá fyrri samningi.

Heildarfjárhæð samningsins fyrir árið 2011 er 415,3 milljónir króna og 425 milljónir króna árið 2012. Í ár er upphæðin 686,9 milljónir króna, til ráðgjafar- búfjárræktar og þróunarverkefna auk framlags til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Framlög til Framleiðnisjóðs eru skorin nær alveg niður í nýjum samningi. Á yfirstandandi ári eru framlög til sjóðsins 148,3 milljónir króna en verða á næsta ári 15,3 milljónir. Árið 2012 verður upphæðin síðan 25 milljónir króna.

Í samningnum er lögð áhersla á að fresta þeim verkefnum sem mögulegt er að fresta en verja búfjárræktarstarf, ráðgjafaþjónustu og störf eins og kostur er. Þrátt fyrir það er ljóst að framlög til ráðgjafaþjónustu og búfjárræktar verða fyrir verulegum skerðingum, um 17,1 prósent alls. Þróunar- og jarðarbótaverkefni eru skorin nær alveg niður, aðeins er veitt til þeirra 11,7 milljónum árlega sem ætlað er til framlags í jarðræktarsjóð. Ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum til markaðsverkefna.

Hér má sjá nýjan búnaðarlagasamning.

Hér má sjá frétt Bændablaðsins um undirritun samningsins.