Beint í efni

Nýmjólkin langódýrust á Íslandi!

28.01.2008

Framkvæmdastjóri LK var staddur í Danmörku og Noregi í síðustu viku. Af því tilefni var tækifærið notað og gerður samanburður á nýmjólkurverði á Íslandi og í þessum löndum, sem við helst berum okkur saman við varðandi verðlag og lífskjör. Kom þá í ljós að verðmunurinn var mjög mikill, Íslandi í hag. Vart þarf að taka fram að í öllum þessum löndum njóta bændur opinbers stuðnings, þó sýnu mests í Noregi. Þetta verðdæmi sýnir betur en flest annað, af hve mikilli hörku verði á mjólkinni hefur verið haldið niðri hér á landi undanfarin ár. Afleiðingin af því er m.a. hærra verð en ella þyrfti að vera á unnum mjólkurvörum, t.d. osti og jógúrt. Mismunur á framlegð einstakra vöruflokka er þar af leiðandi orðin meiri en búandi er við. Það er því brýnt hagsmunamál kúabænda að verðlagning á nýmjólk og skyldum vörum verði færð nær raunveruleikanum. Í töflunni hér að neðan má sjá verð á einum lítra af nýmjólk í nokkrum verslunum í Danmörku, Noregi og Íslandi.
 

Verslun, land, vara  Verð í erlendri mynt Verð í íslenskum krónum
Føtex, Danmörk, Arla Ekspres sødmælk 8,50 109,82
Netto, Danmörk, Arla Ekspres sødmælk 6,95 89,79
CC Mart’n, Noregur, Tine Hel mælk 12,70 151,64
Kiwi lavpris, Noregur, Tine Hel mælk 10,70 127,76
Krónan, Ísland, MS Nýmjólk 74
Hagkaup, Ísland, MS Nýmjólk 83

Miðað er við gengi DKK 12,92 og NOK 11,94 skv. vef Landsbankans í dag, 28.1.2008

 

Føtex og CC Mart’n eru stórmarkaðir í svipuðum flokki og Hagkaup, leggja meiri áherslu á úrval en lágt verð.

Netto og Kiwi lavpris eru lágvöruverðsverslanir, í svipuðum flokki og Krónan. Vöruúrval er þó líklega talsvert meira í Krónunni en þessum verslunum.

 

Ef borið er saman verð í stórmörkuðum, Føtex, CC Mart’n og Hagkaup er mjólkin 32% dýrari í Danmörku og 83% dýrari í Noregi. Ef miðað er við lágvöruverðsverslanirnar Netto, Kiwi lavpris og Krónan er mjólkin 21% dýrari í Danmörku og 72,6% dýrari í Noregi. Verðmunurinn er því miklu meiri en svo að t.d. mismunandi virðisaukaskattur geti skýrt hann, í Danmörku er hann 25%, í Noregi 12% og 7% hér á landi.

 

Verð á matvörum hefur hækkað verulega á Norðurlöndunum að undanförnu. Samkvæmt verðkönnun sem danska dagblaðið Berlingske Tidende birti þann 19. janúar sl., þar sem verð var borið saman við mælingu blaðsins frá júní 2007, hafði verð á léttmjólk hækkað um 25,45% , smjöri um 55,07% og hreinu jógúrti um 26,67%.

 

Heildsöluverð mjólkurvara hækkaði hér á landi um 2-3,5% um síðustu áramót, sem er fyrsta hækkunin í tvö ár.