Nýmjólkin langódýrust á Íslandi!
28.01.2008
Framkvæmdastjóri LK var staddur í Danmörku og Noregi í síðustu viku. Af því tilefni var tækifærið notað og gerður samanburður á nýmjólkurverði á Íslandi og í þessum löndum, sem við helst berum okkur saman við varðandi verðlag og lífskjör. Kom þá í ljós að verðmunurinn var mjög mikill, Íslandi í hag. Vart þarf að taka fram að í öllum þessum löndum njóta bændur opinbers stuðnings, þó sýnu mests í Noregi. Þetta verðdæmi sýnir betur en flest annað, af hve mikilli hörku verði á mjólkinni hefur verið haldið niðri hér á landi undanfarin ár. Afleiðingin af því er m.a. hærra verð en ella þyrfti að vera á unnum mjólkurvörum, t.d. osti og jógúrt. Mismunur á framlegð einstakra vöruflokka er þar af leiðandi orðin meiri en búandi er við. Það er því brýnt hagsmunamál kúabænda að verðlagning á nýmjólk og skyldum vörum verði færð nær raunveruleikanum. Í töflunni hér að neðan má sjá verð á einum lítra af nýmjólk í nokkrum verslunum í Danmörku, Noregi og Íslandi.
Verslun, land, vara | Verð í erlendri mynt | Verð í íslenskum krónum |
Føtex, Danmörk, Arla Ekspres sødmælk | 8,50 | 109,82 |
Netto, Danmörk, Arla Ekspres sødmælk | 6,95 | 89,79 |
CC Mart’n, Noregur, Tine Hel mælk | 12,70 | 151,64 |
Kiwi lavpris, Noregur, Tine Hel mælk | 10,70 | 127,76 |
Krónan, Ísland, MS Nýmjólk | 74 | |
Hagkaup, Ísland, MS Nýmjólk | 83 |
Miðað er við gengi DKK 12,92 og NOK 11,94 skv. vef Landsbankans í dag, 28.1.2008
Føtex og CC Mart’n eru stórmarkaðir í svipuðum flokki og Hagkaup, leggja meiri áherslu á úrval en lágt verð.
Netto og Kiwi lavpris eru lágvöruverðsverslanir, í svipuðum flokki og Krónan. Vöruúrval er þó líklega talsvert meira í Krónunni en þessum verslunum.
Ef borið er saman verð í stórmörkuðum, Føtex, CC Mart’n og Hagkaup er mjólkin 32% dýrari í Danmörku og 83% dýrari í Noregi. Ef miðað er við lágvöruverðsverslanirnar Netto, Kiwi lavpris og Krónan er mjólkin 21% dýrari í Danmörku og 72,6% dýrari í Noregi. Verðmunurinn er því miklu meiri en svo að t.d. mismunandi virðisaukaskattur geti skýrt hann, í Danmörku er hann 25%, í Noregi 12% og 7% hér á landi.
Verð á matvörum hefur hækkað verulega á Norðurlöndunum að undanförnu. Samkvæmt verðkönnun sem danska dagblaðið Berlingske Tidende birti þann 19. janúar sl., þar sem verð var borið saman við mælingu blaðsins frá júní 2007, hafði verð á léttmjólk hækkað um 25,45% , smjöri um 55,07% og hreinu jógúrti um 26,67%.
Heildsöluverð mjólkurvara hækkaði hér á landi um 2-3,5% um síðustu áramót, sem er fyrsta hækkunin í tvö ár.