Nýjasta hefti Peningamála – aukin áhætta af erlendum lántökum
05.07.2007
Í morgun kom út 2. hefti Peningamála Seðlabankans á árinu 2007. Þar kemur fram að stýrivextir bankans verða áfram óbreyttir, 13,3%. Einnig á bankinn von á því að vaxtalækkunarferli seinki, en í mars sl. var búist við því að það gæti hafist síðla á þessu ári. Vonir standa nú til að það geti farið af stað einhvern tímann á fyrri hluta næsta árs.
Á bls. 17-18 í heftinu er einnig athyglisverð klausa um lán í erlendri mynt:
„Áhætta af erlendri lántöku hefur aukist …
Vöxtur útlána lánakerfisins náði sögulegu hámarki á síðasta fjórðungi sl. árs, en á fyrsta fjórðungi þessa árs hægði verulega á honum. Er hann nú svipaður og undir árslok 2004. Vöxtur útlána innlánsstofnana hefur þó aukist á ný undanfarna mánuði. Vöxtur gengisbundinna útlána heimila að teknu tilliti til gengisbreytinga hefur verið mikill frá ársbyrjun 2005, einkum undanfarið ár. Þótt gengislækkun krónunnar á sl. ári hafi aukið greiðslubyrði erlendra lána virðast lántakendur hafa talið litla hættu á frekari gengislækkun, enda ætti lægra raungengi
jafnan að fela í sér hagstæðari skilyrði til lántöku í erlendum gjaldmiðlum til langs tíma litið. Nú er meðalgengi krónu hins vegar orðið mun hærra á ný, án þess að verulega hafi dregið úr eftirspurninni. Gjaldmiðlasamsetningin hefur einnig tekið töluverðum breytingum undanfarið hálft ár. Um áramót voru lán til heimila í svissneskum frönkum og japönskum jenum 47% gengistryggðra útlána þriggja stærstu viðskiptabankanna en um 85% í maímánuði.
… einkum sökum aukins vægis lágvaxtagjaldmiðla
Aukið vægi lágvaxtagjaldmiðla felur í sér umtalsvert aukna áhættu af þrennum toga. Í fyrsta lagi leiða sveiflur í gengi krónunnar almennt til meiri breytileika greiðslubyrðar gengistryggðra en verðtryggðra lána. Vegna þess að heimilin, ólíkt mörgum fyrirtækjum, eru alla jafna ekki með neinar gengisvarnir, hvorki með tekjuflæði í lántökugjaldmiðli né
framvirkum samningum, eru þau berskjölduð fyrir slíkum sveiflum. Í öðru lagi er sérstök áhætta bundin þeim gjaldmiðlum sem vega þyngst um þessar mundir. Í sögulegu samhengi er gengi þeirra veikt og gæti því átt eftir að hækka verulega, einkum gengi japanska jensins. Ef veiking krónunnar færi saman við enn frekari styrkingu þessara gjaldmiðla
gæti það haft veruleg áhrif á greiðslubyrði þessara lána. Í þriðja
lagi bera þessi lán breytilega vexti sem nú eru sögulega lágir. Lesa má út úr framvirkum vöxtum þeirra gjaldmiðla sem vega rúmlega 95% í gengistryggðum útlánum þriggja stærstu bankanna til heimilanna þ.e. svissnesks franka, japansks jens og evru, að vænst er verulegrar hækkunar vaxta á næstu misserum. Þessu til viðbótar má telja verulegar líkur á að hækkun vaxta t.d. í Japan muni leiða til hækkunar á gengi
jensins og lækkunar á gengi krónunnar. Áhættuþættirnir eru því innbyrðis tengdir. Mikilvægt er að lántakendur geri sér grein fyrir því. Þótt gengistryggð lán nemi nú 11-12% af heildarútlánum innlánsstofnana til heimila ráðast fjármálaleg skilyrði heimilanna enn að langmestu leyti af innlendri vaxtaþróun og framboði lánsfjár. Öðru máli gegnir um fyrirtæki. Hlutdeild gengistryggðra lána er um 60% af heildarútlánum innlánsstofnana til fyrirtækja. Mörg fyrirtæki hafa tekjur í erlendum gjaldmiðlum auk þess sem gengisvarnir eru þeim
mun aðgengilegri. Gjaldeyrisáhætta sem fólgin er í gengistryggðum útlánum til fyrirtækja er því oftar en ekki mun minni en til heimilanna. Hjá fyrirtækjum vega áhrif erlendra fjármálalegra skilyrða mun þyngra. Á móti hærri erlendum grunnvöxtum vegur að þau kunna að njóta lægra áhættuálags bankanna að einhverju leyti. Verð skuldatrygginga
þeirra er nú svipað og rétt eftir að Moody’s hækkaði lánshæfismat bankanna í febrúar sl. Ætla má að betri vaxtakjara bankanna gæti í útlánsvöxtum sem þeir bjóða heimilum og fyrirtækjum“.
Heimild: Peningamál Seðlabanka Íslands 2.2007. Útg. 05.07.2007