Nýja-Sjáland og Norðvesturkjördæmi
25.09.2006
Í gær sendi þingflokkur Samfylkingarinnar frá sé tilkynningu um aðgerðir til að lækka matvælaverð. Sá hluti aðgerðanna sem snýr að tollum á innfluttum matvælum á sér ekkert fordæmi í íslenskri atvinnusögu, þær eru algjört einsdæmi. Að allir tollar verði horfnir af innfluttum matvælum hinn 1. júlí 2008 er raunar svo ótrúleg tillaga að maður spyr sig, hvernig verður þetta til ?
Nú hvarflar ekki að mér að efast um rétt þingflokks Samfylkingarinnar til að setja sér hverja þá stefnu sem hann kýs. Málið snýst um afleiðingar þess ef stefnunni yrði hrint í framkvæmd. Er það virkilega svo að þær skýringar sem komu fram í hádegisfréttum RÚV 25.9. hjá þingmanni Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, séu grundvöllur að þessari ályktun þingflokksins?
Anna Kristín Gunnarsdóttir hélt því fram að við mat á áhrifum tillagna þingflokks Samfylkingariannar á íslenskan landbúnað mætti líta til góðrar reynslu Nýsjálendinga af því að fella niður stuðning við landbúnaðinn. Nú er það svo að afkastageta jarðarinnar og loftslag eru þættir sem ráða miklu um hvað er ræktað og hver framleiðslukostnaðurinn verður á hverjum stað. Að starfandi þingmaður í Norðvesturkjördæmi skuli með þessum hætti leggja að jöfnu aðstæður til landbúnaðar í Nýja-Sjálandi og Norðvesturkjördæmi sýnir algjörlega ótakmarkað hugmyndaflug, sem því miður gæti haft skelfilegar afleiðingar en talið er að um 10.000 manns vinni við landbúnað og afleidd störf í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum.
Staðreyndin er sú engin þjóð í heiminum sem býr við hliðstæðar aðstæður og Ísland hefur farið sömu leið og Nýsjálendingar. Sú staðreynd að samningar um landbúnaðarmálin á vettvangi WTO eru nú sigldir í strand, staðfestir að þær þjóðir heimsins sem þar takast á, eru ósammála því mati Önnu Kristínar Gunnarsdóttur að nýsjálenska leiðin sé þeim fær.