Beint í efni

Nýjar flokkunarreglur á mjólk 1. febrúar n.k.

16.01.2010

Eins og fram kom á haustfundum LK í október sl. skilaði starfshópur kúabænda og mjólkuriðnaðar, af sér tillögum um nýjar flokkunarreglur mjólkur í ágúst sl. Tillögur þessar hafa nú öðlast staðfestingu hjá Verðlagsnefnd búvöru og koma til framkvæmda 1. febrúar n.k. Helstu breytingarnar eru að verðskerðing vegna gæðaaffalla sökum hárrar líftölu og lyfjaleyfa er nú á vikugrunni, í stað mánaðar eins og áður var. Rétt er að taka fram að mjólk sem í greinast lyfjaleyfar er eytt. Flokkun vegna frírra fitusýra verður tekin upp um næstu mánaðamót, en verðskerðing vegna hennar um næstu áramót. Landssamband kúabænda hefur gert það að tillögu við LBHÍ að efnt verði til námskeiðahalds vegna þessa, þar sem að komi starfsmenn mjólkureftirlits SAM og aðrir sérfræðingar á þessu sviði. Ef svo fer fram sem horfir, verður Íslands annað landið á Norðurlöndum til að taka upp flokkun vegna ffs. Slík flokkun er einungis framkvæmd í Noregi um þessar mundir.

Flokkunarreglurnar má sjá í heild sinni hér.