Nýja-Sjáland: Nautgripa- og sauðfjárbændur í eina sæng!
05.02.2013
Einstök samstaða bænda í Nýja-Sjálandi á sviði útflutnings afurða er fyrir löngu orðin heimfræg. Nánast allir þekkja til Fonterra og þeirrar yfirburðastöðu sem það afurðafélag í mjólkuriðnaði hefur yfir að ráða á heimsmarkaði. Að sama skapi hafa nýsjálenskir sauðfjárbændur náð einkar góðum árangri með samstöðu við útflutning á lambakjöti og þarlendir nautgripabændur hafa einnig fyrir margt löngu áttað sig á því að góður árangur næst ekki nema með því að flytja kjötið út um eina gátt. Nú ætla þessir bændur hins vegar að gera enn betur og hafa ákveðið að setja upp sérstakt samstarfsverkefni.
Samstarfið er í fyrstu sett upp sem sjö ára verkefni sem hefur það að markmiði að gera þennan hluta landbúnaðarframleiðslunnar í Nýja-Sjálandi enn öflugri og sterkari en verið hefur. Um óhemju stórt verkefni er að ræða en svo mikla trú hefur hið opinbera á verkefninu að það greiðir helming alls kostnaðar við það. Auk þess koma að þessu, auk auðvitað búgreinafélaganna, sláturhús, bankar og útflutningsaðilar.
Með samstarfinu verður horft til þess að efla framlegð bæði sauðfjár- og nautakjötsframleiðslunnar og styrkja stöðu þessara búgreina enn frekar á alþjóðlegum mörkuðum, sem eru reyndar fyrir með afar sterka stöðu. Nánar má fræðast um þetta áhugaverða verkefni hér: www.beeflambnz.com/news-events/red-meat-sector-strategy/SS.