Beint í efni

Nýja fjósið á Hvanneyri tekið í notkun

06.08.2004

Föstudaginn 6. ágúst sl. var nýja kennslu- og rannsóknarfjósið á Hvanneyri tekið formlega í notkun. Athöfnin fór fram í fjósinu sjálfu.

Með nýja fjósinu verður mikil breyting á allri kennslu- og rannsóknaaðstöðu í nautgriparækt við skólann, en í fjósinu er nútímaleg aðstaða fyrir gripi og fólk. Kýr og kvígur í uppeldi verða á legubásum, en smákálfar í hálmstíum með sjálfvirkri mjólkurfóðrun. Kýrnar verða mjólkaðar í 2×6 mjaltabás (DeLaval), sem um leið mun þjóna sem kennsluaðstaða fyrir bændaefni og endurmenntunaraðstaða fyrir starfandi bændur.

 

Fjósið er rúmgott og bjart og sérstaklega hefur verið hugað að móttöku hópa og í sérstöku móttökurými á annarri hæð má m.a. sjá yfir fjósið. Loftræsting er náttúruleg, þannig að hvinur frá viftum mun ekki trufla kennslu eða leiðsögn.

 

Í fjósinu er rúmgóð kennslustofa, sem og kaffistofa fyrir starfsfólk. Þá er sérstakt vinnusvæði í enda fjóssins ætlað vinnu við fóður og kennslu.

 

Kostnaður við framkvæmdina í heild er um 110 milljónir.