Beint í efni

Nýir tímar í viðskiptum með greiðslumark

08.08.2020

Nú styttist í annan tilboðsmarkað greiðslumarks þessa árs og mánudaginn næsta, 10. ágúst, rennur út frestur til að skila inn tilboðum fyrir kaup og sölu á kvóta. Helstu tíðindi fyrir þennan markað er sú ákvörðun um að hámarksverð á markaði skuli vera þrefalt afurðastöðvaverð, sem nú er 294 krónur, og að það fyrirkomulag mun gilda út árið 2023 þegar næsta endurskoðun samningsins er.

Nokkur samstaða hefur verið meðal bænda um að það væri mikið hagsmunamál fyrir framtíð greinarinnar að halda verði á greiðslumarki í lægri kantinum og við síðustu endurskoðun börðust fulltrúar LK hart fyrir því að setja hámarksverð á kvótamarkað og það myndi miðast við tvöfalt afurðastöðvaverð hverju sinni. Fulltrúar bænda í framkvæmdanefnd búvörusamninga höfðu svo einnig lagt til tvöfalt afurðastöðvaverð og að sú ákvörðun skildi gilda út samningstímann til ársins 2026 en það náðist ekki.

Mikil spenna hefur myndast í greininni síðustu ár. Í allt of langan tíma hefur verið uppi óvissa um fyrirkomulag kvótaviðskipta sem hefur orðið til þess að lítil sem engin hreyfing hefur verið á kvóta. Þeir bændur sem hafa haft hug á að hætta og selja sitt greiðslumark hafa hingað til haldið að sér höndum, fyrst beðið eftir nýju viðskiptaformi og síðar í von um að hámarksverð yrði hækkað eða jafnvel afnumið og þannig yrði hægt að fá meira fyrir kvótann. Á sama tíma hefur framleiðslugeta íslenskra kúabúa stóraukist með gríðarlegri þróun í aðbúnaði og starfsumhverfi. Því miður hafa þessar miklu fjárfestingar sem fjöldi framleiðanda hafa farið í margar hverjar ekki nýst almennilega þar sem lítil hreyfing hefur verið á kvóta. Og staða búa í slíkri stöðu hefur ekki batnað með lækkandi verði á umframmjólk.

Það er ekki auðvelt að standa að rekstri með svo mikla óvissu í jafn mikilvægum þætti rekstrarins sem viðskipti með greiðslumark er þar sem það gerir bændum erfitt að gera rekstraráætlanir og taka aðrar mikilvægar ákvarðanir um sinn búrekstur.

Í mínum huga var það orðið nokkuð ljóst að mest aðkallandi fyrir greinina var að fá einhvern stöðugleika og stöðva endalaust hringl með kvótaverð svo að hreyfing kæmist á viðskipti. Samningar náðust loks um að hámarksverð yrði á kvótamarkaði en það myndi miðast við þrefalt afurðastöðvaverð.

Skref fram á við

Það er alltaf gott að taka umræðuna og vera opin fyrir að bótum á  kerfinu á hverjum tíma fyrir sig. Það sem kemur okkur hingað, kemur okkur ekkert endilega þangað. Því held ég að það sé hollt að bændur ræði áfram mögulegar breytingar á kerfinu sem við störfum innan og nýti tímann fram að næstu samningum vel. Að því sögðu þurfa menn þó einnig að vera opnir fyrir þeim möguleika að núverandi fyrirkomulag viðskipta með greiðslumark mjólkur gæti verið besta lausnin sem flestir geta fallist á og að það sé óþarfi að stugga við því meðan einhver stöðugleiki hefur náðst og aðrar, betri og vel útfærðar lausnir liggja ekki fyrir. Það er óskynsamlegt að stökkva á breytingar til þess eins að breyta.

Talsverðar breytingar til hins betra hafa hins vegar orðið á fyrirkomulagi með viðskipti greiðslumarks frá þeim kvótamarkaði sem þekktist fyrir árið 2017. Ákveðnir útfærslupunktar fyrirkomulagsins tryggja greininni aukinn stöðugleika og jafnræði meðal framleiðanda þegar kemur að kaupum á greiðslumarki.

  • Aukinn stöðugleiki og vissa fæst í kjölfar þess að þak hefur verið sett á verð greiðslumarks og það þak fest í sessi til lengri tíma.
  • Hámark hefur verið sett á hvað hver framleiðandi má eiga hlutfallslega af heildargreiðslumarki hvers árs og hámark hefur verið sett á hvað hver aðili getur keypt af greiðslumarki á hverjum markaði.
  • Með hámarksverði og hámarki á kaupum á hverjum markaði standa framleiðendur jafnar við borðið.
  • Auk þessa hefur forgangur nýliða nú einnig verið betur tryggður, nýliðar hafa forkaupsrétt á 5% af þeim rétti sem er til sölu á hverjum markaði og standa svo að auki til jafns við aðra í útboði um hin 95%.

Það hefur verið erfitt að hugsa til þeirra bænda sem hafa setið í slæmri stöðu hvort sem þeir hafi verið að reyna að stíga út úr greininni eða vantað greiðslumark til að nýta fjárfestingar sínar betur. Allur tíminn sem hefur farið í hringl fram og til baka með viðskiptafyrirkomulag greiðslumarks og biðin eftir að fá einhvern stöðugleika í greinina hefur tekið á. Það er hægt að svekkja sig lengi á því að það hafi þurft að taka svo langan tíma að fá fram að festa hámarksverðið um einhvern tíma. Sumir svekkja sig yfir að ekki hafi náðst lending með að hámarksverð yrði tvöfalt afurðastöðvaverð en þegar litið er á heildarmyndina er stöðugleikinn og vissan til lengri tíma sem nú hefur náðst okkur gríðarlega dýrmæt.

Ég hef trú á að nú loksins komist einhver hreyfing á greiðslumark og losni um hnútinn sem var orðinn ansi vel hertur.

Ritað á Egilsstöðum 7. ágúst 2020

Herdís Magna Gunnarsdóttir