Beint í efni

Nýir hrútar á sæðingastöðvarnar haustið 2008

11.09.2008

Búið er að fá flesta þá hrúta sem koma nýir til nota á sæðingastöðvunum í desember í vetur. Ætlunin er að gefa örstutta kynningu á þessum hrútum á næstunni. Verður henni hagað þannig að á hverjum degi verður kynntur til leiks einn nýr hrútur. Hrútarnir verða kynntir í stafrófsröð og verður kynningin framvegis á vefnum www.bondi.is í landbúnaðarráðgjafarhlutanum, undir sauðfjárræktinni, og finna má hér.

 


Fyrstur í röðinni er hrúturinn Ás.  Hann er fæddur árið 2004 í Ásgarði í Landbroti og hefur verið notaðaur alla tíð þar á búinu. Ás er kollóttur og hvítur að lit. Þrátt fyrir að vera fæddur á skaftfellskri grund  er ætterni hans þannig að þetta er meiri Strandahrútur en flestir kollóttu hrútarnir. Faðir hans er Snoddi 99-896 frá Heydalsá sem reynst hefur einhver allra öflugasti ærfaðir úr hópi stöðvarhrúta og margir haft orð á að ástæða væri að leita sonar hans til notkunar á stöð og er hann nú fundinn. Móðurfaðir hans er Dalur 97-838 frá Heydalsá og móðurmóðurfaðir Skjanni 92-968 frá Gröf.
   Ás er sjálfur bollangur mjög vel gerður hrútur. Hann hefur reynst góður faðir sláturlamba, hefur 118 í BLUP einkunn fyrir fitu og 111 fyrir gerð eða 115,2 í kjötgæðaeinkunn. Nokkur reynsla er fenginn um hann sem ærföður og hefur hann reynst ákaflega vel sem slíkur en hann hefur 120 í BLUP einkunn fyrir mjólkurlagni og 104 fyrir frjósemi og nú í vor var frjósemi dætra hans langt umfram meðaltal búsins þannig að vænta má að hann bæti stöðu sína þar enn. Móðir hans hefur reynst farsæl og öflug afurðaær.