
Nýir hrútar á sæðingarstöðvunum
18.09.2009
Allstór hópur hrúta var í vor valinn til notkunar á stöðvunum frá haustinu 2009. Þessir hrútar hafa í sumar dvalið á grænum grundum í einangrunargirðingum stöðvanna. Í hópinn mun síðan bætast á næstu dögum nokkrir hrútar sem koma úr sértökum afkvæmarannsóknum fyrir stöðvarnar á nokkrum stöðum sem dreift er um landið. Á næstu dögum verður fyrri hópurinn kynntur í sauðfjárræktarhlutanum á hliðstæðan hátt og gert var á síðasta ári. Síðar í haust mun vonandi gefast tækifæri til að kynna þá hrúta sem nýir koma á næstu dögum. Þetta verður smá forskot á hrútaskrána, sem mun síðan líkt og áður færa lesendum ítarlegar upplýsingar um allan hrútakost stöðvanna þegar hann liggur fyrir.
Fyrstir verða kynntir til leiks nýir forystuhrútar, en nú er komið að endurnýjun þeirra. Síðan munu þeir sem eru þyngri í spori feta í slóð þeirra og munu þeir birtast í stafrófsröð. Til viðbótar líkri umfjöllun og á síðasta ári mun núna fylgja í viðhengi ættarskrá kjötframleiðsluhrútanna þar sem hún er til og ef til vill hafa einhverjir gaman af því að glugga í þær upplýsingar. Þessar upplýsingar eru að vísu misítarlegar fyrir einstaka hrúta.