Nýbærur með minni svefn
20.01.2016
Það er mikill munur á því hve mikið kýr þurfa að sofa að því að kemur fram í nýlegri sænskri rannsókn sem greint var frá á ráðstefnu um dýravelferð og fóðrun þar í landi. Í rannsókninni, sem framkvæmd var við sænska landbúnaðarháskólann, kom í ljós að nýbærur sofa að jafnaði einni klukkustund minna en kýr á seinnihluta mjaltaskeiðsins en ennfremur staðfesti rannsóknin það sem hefur svo sem verið löngum þekkt að kýr sofa almennt mjög lítið en dorma þess í stað.
Í rannsókninni var 19 kúm fylgt eftir allt mjaltaskeiðið en fram kom að kýrnar sváfu minnst fyrstu tvær vikurnar eftir burðinn en þá nam svefn þeirra 1 klukkustund og 28 mínútum á sólarhring að jafnaði. Til samanburðar sváfu þær að jafnaði 2 klukkustundir og 16 mínútur að jafnaði í lok mjaltaskeiðsins, rétt fyrir geldstöðuna. Þess má geta að það er hreint ekki einfalt mál að mæla svefn kúa en í ljós kom að unnt var að nota samskonar búnað og notaður er á fólk sem á við svefnvandamál að stríða. Sérstökum tölvunemum var komið fyrir á kúnum og fylgdust þeir með heilavirkni kúnna. Niðurstöðurnar sýndu einnig að kýrnar lágu að jafnaði í um 12 klukkustundir á dag og vörðu stærstum hluta þess tíma, eða 8,5 klukkustundum, í að jórtra/SS.