Beint í efni

Ný útgáfa af LAMB með heimarétt

04.06.2013

Ný útgáfa af LAMB (www.lamb.bondi.is), nýju vefforriti fyrir sauðfjárrækt, er komin út. Í þessari útgáfu hefur verið bætt við svokallaðri ,,heimarétt", en í henni er yfirlit yfir fjárstofn búsins; lifandi ær, hrúta og lömb. Hægt er að raða dýrum eftir dálkum en einnig er unnt að skoða upplýsingar um hvert dýr í upplýsingasíðum (flipum). Þannig er hægt að skoða grunnupplýsingar, ættartré, afkvæmi, kynbótamat og flutningssögu. LAMB er í byrjun upplýsingagátt fyrir bóndann um fjárstofninn á meðan FJARVIS.IS er hið eiginlega skráningarkerfi fyrir skýrsluhaldið. Unnið er að næstu útgáfu en í henni verður opnað fyrir heilsukort búsins. Þar má nálgast upplýsingar um vitjanir dýralækna sem þeir skrá í HEILSU (www.bufjarheilsa.is), tölvukerfi MAST. Jafnframt munu bændur geta skráð framhaldsmeðhöndlun og þá meðhöndlun sem dýralæknar gefa leyfi fyrir samkvæmt reglugerð þar um. Við þróunina var stuðst við gæðastýringareyðublöð í sauðfjárrækt þannig að þessi skráning nýttist bændum við að uppfylla kröfur til gæðastýringar hvað þennan þátt snertir.

Mælt er með að Google Chrome vefrápara þegar unnið er í LAMB, þar sem vandamál hafa komið upp í Internet Explorer útgáfum.

Hugmyndin byggir á heimaréttinni í WorldFeng, upprunaættbók íslenska hestsins.