Beint í efni

Ný tækni: blóðsýni segir til um mótefnastöðu

25.07.2013

Kanadískir vísindamenn við háskólann í Guelph hafa nú útbúið blóðpróf sem segir til um mótefnastöðu mjólkurkúa. Þetta eru afar góð tíðindi enda hefur löngum verið vitað um mikilvægi þess að mjólkurkýr hafi mikið af mótefnum í blóði sínu til þess að berjast gegn kvillum. Með þessu einfalda prófi er nú hægt að skoða mun á milli kúa og taka með inn í vangaveltur um kynbótastarf, þ.e. hægt að setja inn lágmark á mótefnastöðu sem ásættanleg er gagnvart framræktun.

 

Blóðpróf þetta var reynt í tilraun á 680 kúm á 58 kúabúum í Kanada og sýndu niðurstöðurnar að kýr með hátt hlutfall mótefna urðu mun sjaldnar veikar en þeirra sem voru með lágt hlutfall. Júgurbólga og fastar hildir eru dæmi um sjúkdóma sem skoðaðir voru og komust vísindamennirnir að því að kýr með hátt hlutfall mótefna fengu 17 júgurbólgutilfelli á hverjar 100 kýr á meðan hinar lægri fengu 31 tilfelli á hverjar 100 kýr. Nú vinna vísindamennirnir að því að prófa enn frekar aðferð sína en vænta má þess að þessi nýja tækni verði aðgengileg á markaði á komandi árum/SS.