Beint í efni

Ný tækifæri á rússneska markaðinum

07.09.2012

Undanfarin misseri hafa flest afurðafélögin í mjólkuriðnaði í heiminum, sem á annað borð starfa á útflutningsmarkaði, komið sér fyrir á hinum geysistóra rússneska markaði með góðum árangri. Þar í landi hefur kaupgetan vaxið jafnt og þétt og sökum nálægðar við Vestur-Evrópu er þetta kjörinn vettvangur til þess að afsetja landbúnaðarvörur á.

 

En það er ekki bara í mjólkurðinaði sem vel gengur, einnig hefur nautakjötsmarkaðurinn tekið vel við innfluttu kjöti og það hafa m.a. bandarískir kúabændur sannreynt. Fyrstu sex mánuði ársins jókst útflutningur á bandarísku nautakjöti til Rússlands um 17% frá árinu 2011 en það sem er markverðast er sú staðreynd að verðmæti þessa útflutnings var 57% meira en fyrstu 6 mánuðina 2011. Þarna skiptir að sjálfsögðu gengið máli en einnig eftirtektarverkt markaðsátak Bandaríkjamanna, Beef Checkoff Program, í Rússlandi sem hefur leitt til hás skilaverðs á hinu frosna kjöti.

 

Nú horfa bandarískir bændur, líkt og aðrir í heiminum, til þess að í kjölfar inngöngu Rússlands í WTO nú í ágúst þá muni landið opna enn frekar fyrir innflutning á öllum landbúnaðarvörum með tilheyrandi tækifærum fyrir sókndjörf afurðafyrirtæki bænda. Spurning hvort þarna séu ekki tækifæri fyrir íslensk afurðafélög einnig?/SS.