Beint í efni

Ný stjórn Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands

15.02.2021

Mynd: Gunnar Þorgeirsson, formaður BÍ, ný stjórn Nautís: Jón Örn Ólafsson, Gunnar Kristinn Eiríksson og Sveinbjörn Eyjólfsson, Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Nautís, Bessi Freyr Vésteinsson, stjórnarmaður LK

Aðalfundur Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands (Nautís) var haldinn föstudaginn 12. febrúar sl. að Stóra Ármóti í Flóahreppi. Nautís er í eigu Bændasamtaka Íslands, Landssambands kúabænda og Búnaðarsambands Suðurlands sem hafa verið að reka einangrunarstöð fyrir holdagripi að Stóra Ármóti síðustu árin en fyrstu kálfarnir fæddust þar sumarið 2018.

Á aðalfundinum var kosin ný stjórn en Sigurður Loftsson, sem setið hefur sem fulltrúi Landssambands kúabænda og formaður Nautís frá upphafi, gaf ekki áframhaldandi kost á sér til stjórnarsetu. Er Jón Örn Ólafsson á Nýjabæ undir Eyjafjöllum nýr fulltrúi LK og Herdís Magna Gunnarsdóttir varamaður hans. Sigurði Loftssyni eru færðar miklar þakkir fyrir óeigingjarnt starf í þágu íslenskrar nautgriparæktar.

Jón Örn Ólafsson og Sigurður Loftsson

Í dag er stjórnin eftirfarandi:

  • Jón Örn Ólafsson, fulltrúi LK
  • Sveinbjörn Eyjólfsson, fulltrúi NBÍ ehf
  • Gunnar Kristinn Eiríksson, fulltrúi Bssl

Framkvæmdastjóri er Sveinn Sigurmundsson, bústjóri er Baldur Indriði Sveinsson, dýralæknir er Þorsteinn Ólafsson og ráðgjafi er Baldur Helgi Benjamínsson

Nú eru á einangrunarstöðin 16 Angus kvígur og á þessu ári bætast væntanlega það margar við að þeir 20 legubásar sem eru á stöðinni fyllist. Þá verður endurnýjun á erfðaefninu sinnt með innflutningi á bæði fósturvísum og sæði og höfum við þannig aðgang að besta erfðaefni Norðmanna. Þeir endurnýja síðan sitt erfðaefni með innflutningi á sæði úr bestu Angus nautunum sem völ er á í heiminum. Nautís hefur nú þegar komið með til landsins erfðaefni úr 6 af bestu nautunum sem hafa verið notuð til kynbóta í Noregi síðustu ár. Þau eru; Stóri Tígur, First Boyd, Hovin Hauk, Horgen Erie, Emil av Lillebakken og Jens av Grani.

Það verður ekki annað sagt en framkvæmd verkefnisins í heild gangi að vonum og komin sé sterkur grunnur að byggja á. Eftir að komin verður full áhöfn arfhreinna Angus kúa í stöðinni, eykst mjög svigrúm til að nýta kvígur til fósturvísaskolunar og selja þær síðan til framræktunar í hjörðum bænda.