Beint í efni

Ný stjórn BÍ kosin

01.04.2022

Ný stjórn Bændasamtakanna var kosin á Búnaðarþingi í dag sem situr til næstu tveggja ára og komu fjórir nýir inn í stjórnina. Gunnar Þorgeirsson var sjálfkjörinn formaður og Halla Eiríksdóttir, Hákonarstöðum á Jökuldal ásamt Halldóru K. Hauksdóttur, Græneggjum ehf. í Svalbarðsstrandarhrepp voru kjörnar aftur. Nýir inn í stjórn koma Herdís Magna Gunnarsdóttir, Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði, Trausti Hjálmarsson, Austurhlíð í Biskupstungum, Reynir Þór Jónsson, Hurðarbaki í Flóa og Jón Örn Ólafsson, Nýjabæ undir Eyjafjöllum.

Við sameiningu búgreinafélaga og Bændasamtakana á síðasta ári var ákveðið að fjölga um tvo í stjórn BÍ. Við það fjölgaði varastjórnarmönnum úr fimm í sjö.

Í varastjórn voru kosin Guðmundur Svavarsson, Þuríður Lillý Sigurðardóttir, Bessi Freyr Vésteinsson, Haukur Marteinsson, Sigríður Ólafsdóttir, Jón Helgi Helgason og Sigurður Þór Guðmundsson.

Oddný Steina Valsdóttir og Hermann Ingi Gunnarsson gáfu ekki kost á sér aftur í stjórn og eru þeim þökkuð góð störf í þágu bænda undanfarin ár.