Beint í efni

Ný skýrsla um eflingu alifuglaræktar

18.04.2011

Starfshópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis um eflingu alifuglaræktar á Íslandi skilaði skýrslu um störf sín á dögunum. Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir að þar komi meðal annars fram þau viðhorf að alifuglarækt eigi að reka á sömu forsendum og aðrar búgreinar í landinu, með tilliti til fæðuöryggis, umhverfissjónarmiða, hollustu afurða og þeirra samfélagsáhrifa sem búgreinin hefur. Framleiðsla kjúklinga og eggja eru snar þáttur í fæðu Íslendinga, skapar umtalsverða atvinnu og virðisauka í landinu ásamt því að auka öryggi á markaði fyrir neytendur.

Nefndin vekur athygli á að íslenskir framleiðendur í greininni eru mjög fáir, flestir staðsettir við höfuðborgarsvæðið og þeim hefur fækkað mikið á undanförnum áratugum. Það er álit nefndarinnar að þessi staða skapi fleiri vandamál vegna sjúkdóma og nýtingar á úrgangi en væri ef búin væru fleiri og dreifðari landið.

Þrátt fyrir þetta er staða í sjúkdómavörnum góð á Íslandi enda reglurnar strangari en í öðrum löndum Evrópu.

Þá bendir nefndin á að nær öll framleiðsla kjúklinga og eggja byggir á innfluttu fóðri og að það sé tæpast í samræmi við kröfur um matvælaöryggi. Nefndin telur að mögulegt sé að nota innlent fóður í meira mæli en nú er og þannig hægt að spara gjaldeyri og gera greinina minna háða innflutningi.

Loks gerir nefndin tillögu um endurskoðun á reglugerð um aðbúnað og sjúkdómavarnir í alifuglarækt sem og nauðsyn á leiðbeiningaþjónustu í greininni.

Skýrsla um eflingu alifuglaræktar á Íslandi

alifuglahópur 2011

Starfshópurinn ásamt Jóni Bjarnasyni ráðherra. Frá vinstri: Níels Árni Lund skrifstofustjóri í ráðuneytinu, Jóhannes Sveinbjörnsson dósent hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, Þorsteinn Sigmundsson, formaður Félags eggjaframleiðenda, Jón Bjarnason ráðherra, Björn Halldórsson bóndi á Akri í Vopnafirði sem var formaður hópsins, Skúli Einarsson formaður Félags kjúklingabænda, Brigitte Brugge, dýralæknir alifuglasjúkdóma hjá Matvælastofnun og Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir aðstoðarmaður ráðherra.  Ljósm.: S&L