Beint í efni

Ný reynd naut í dreifingu

16.06.2016

Fagráð í nautgriparækt ákvað á fundi sínum sl. mánudag að sæði úr 17 reyndum nautum verði í dreifingu í sumar. Áfram verður í dreifingu sæði úr; Loga 06019, Rjóma 07017, Keip 07054, Bláma 07058, Blóma 08017, Þætti 08021, Flekk 08029, Góa 08037, Gust 09003, Bolta 09021, Gæja 09047, Ferli 09070 og Drætti 09081.

 

Þau naut sem koma ný til notkunar eru úr árganginum sem fæddist 2010. Þetta eru: Strákur 10011 frá Naustum í Eyrarsveit, undan Pontíusi 02028, mf. Kaðall 94017, Drangi 10031 frá Bakka í Öxnadal, undan Glæði 02001, mf. Ás 02048, Fossdal 10040 frá Merkigili í Eyjafirði, undan Glæði 02001, mf. Hamar 94009, og Bætir 10086 frá Núpstúni í Hrunamannahreppi, undan Síríusi 02032, mf. Stöðull 05001.

 

Nautsfeður verða; Keipur 07054, Gustur 09003, Bolti 09021, Strákur 10011 og Fossdal 10040.

 

Þau naut sem tekin verða úr notkun eru Kraki 09002, vegna lágra efnahlutfalla og lítillar notkunar, Þytur 09078, vegna mjög lágra efnahlutfalla, og Brúnó 09088, vegna lækkunar í mati þar sem hann er kominn niður í 100 í heildareinkunn. Fagráði þótti ekki stætt á því að hafa sæði úr Þyt 09078 áfram í dreifingu vegna hinna mjög lágu efnahlutfalla í mjólk dætra hans, þrátt fyrir að hann standi með 113 í heildareinkunn.

 

Nánari upplýsingar um þessi naut er að finna á vefnum www.nautaskra.net. Sæði úr þessum nautum mun koma til dreifingar á næstu vikum eða við næstu sæðisáfyllingar í kútum frjótækna.

 

Þá hefur kynbótamat allra gripa verið uppfært í Huppu en það var keyrt núna í júní. Í samræmi við það hafa orðið breytingar á skrám yfir nautsmæður og efnilegar kvígur sem menn eru beðnir að veita sérstaka athygli. Við óskum eins og áður eftir því að kýr og efnilegar kvígur með flagg í Huppu verði sæddar með sæði úr nautsfeðrum./gj