Ný reglugerð um kvótamarkað – markaðsdagar 1. apríl og 1. nóvember
02.03.2011
Þann 24. febrúar sl. gaf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið út nýja reglugerð, nr. 190/2011, um viðskipti með greiðslumark í mjólk. Samkvæmt henni verða árlega haldnir tveir tilboðsmarkaði með greiðslumark, 1. apríl með greiðslumark yfirstandandi verðlagsárs og 1. nóvember með greiðslumark næsta verðlagsárs á eftir. Þessi niðurstaða er Landssambandi kúabænda gríðarleg vonbrigði, þar sem mjög eindregnar óskir kúabænda um fjölgun markaðsdaga eru að engu hafðar. Þá er í reglugerðinni nýtt ákvæði þess efnis að „Matvælastofnun er með sama hætti heimilt að staðfesta sölu á greiðslumarki frá einu lögbýli til annars lögbýlis innan sömu jarðatorfu (tvíbýlis eða margbýlisjarðar, sbr. ákvæði landskiptalaga nr. 46/1941), þótt skipt hafi verið með landskiptum að hluta til, enda sé salan til þess fallin að auðvelda kynslóðaskipti og að öðru leyti hagfelld. Beiðni um aðilaskipti samkvæmt þessari málsgrein skal fylgja umsögn héraðsráðunautar“.
Reglugerðina má sjá í heild sinni hér. Ástæða er til að hvetja þá bændur sem hyggjast eiga viðskipti með greiðslumark til að hafa hraðar hendur, þar sem næsti tilboðsmarkaður verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi, eftir 30 daga. Undanfarna mánuði hefur LK gert ítrekaðar tillögur um að markaðsdagar verði þrír, 1. mars, 1. júní og 1. nóvember. Eins hafa aðildarfélög LK ályktað um fjölgun markaðsdaga á aðalfundum sínum að undanförnu. Ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála hefur, eins og áður segir, haft þær óskir að engu og er það mjög miður.